Categories
Greinar

Ávinningur og arðsemi umferðaröryggis

Deila grein

10/06/2021

Ávinningur og arðsemi umferðaröryggis

Í störf­um mín­um sem sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hef ég lagt ríka áherslu á um­ferðarör­yggi og hvatt stofn­an­ir ráðuneyt­is­ins til að hafa ör­yggi ávallt í for­gangi. Stefn­an hef­ur skilað góðum ár­angri. Í mín­um huga er al­veg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka um­ferðarör­yggi okk­ar skil­ar sér marg­falt, m.a. í fækk­un slysa.

Um­ferðarslys eru hræðileg

Um­ferðarslys eru harm­leik­ur en bana­slys og al­var­leg slys í um­ferðinni eru alltof mörg. Þau eru ekki aðeins hræðileg fyr­ir þá sem í þeim lenda og aðstand­end­ur þeirra, held­ur eru þau líka gríðarlega kostnaðar­söm fyr­ir sam­fé­lagið. Árleg­ur kostnaður sam­fé­lags­ins vegna um­ferðarslysa og af­leiðinga þeirra er nú tal­inn nema að meðaltali um 50 millj­örðum króna á ári eða 14 krón­um á hvern ek­inn kíló­metra, en væri mun hærri hefðu um­ferðarör­yggisaðgerðir ekki verið í for­gangi.

Lang­stærst­ur hluti þess kostnaðar er vegna um­sýslu og tjóna­bóta trygg­inga­fé­laga, kostnaður heil­brigðis­kerf­is, Sjúkra­trygg­inga Íslands, líf­eyr­is­sjóða, lög­gæslu og sjúkra­flutn­inga o.fl. Þá er ótal­inn tekjum­iss­ir þeirra sem í slys­un­um lenda og ást­vina þeirra sem sjaldn­ast fæst bætt­ur. Mesta tjónið verður á hinn bóg­inn aldrei metið til fjár en það er hinn mann­legi harm­leik­ur sem slys hafa í för með sér.

Fækk­um slys­um

Í nýrri stefnu um­ferðarör­ygg­is­áætl­un­ar 2023-2037 sem nú er í und­ir­bún­ingi er allt kapp lagt á að auka um­ferðarör­yggi og fækka slys­um. Við for­gangs­röðun aðgerða verður byggt á niður­stöðum arðsem­is­mats sem og slysa­skýrsl­um síðustu ára sem sýna hvar þörf­in er mest, slysa­kort­inu sem sýn­ir verstu slys­astaðina og könn­un­um á hegðun veg­far­enda. Á þess­um góða grunni tel ég að okk­ur muni tak­ast að fækka slys­um enn frek­ar með mark­viss­um aðgerðum og fræðslu. Vil ég þar sér­stak­lega nefna ár­ang­ur ungra öku­manna en með bættu öku­námi og fræðslu hef­ur slys­um sem valdið er af ung­um öku­mönn­um fækkað mikið.

Aðgerðir sem skila mik­illi arðsemi

• Aðskilnaður akst­urs­stefna á fjöl­förn­ustu veg­köfl­un­um til og frá höfuðborg­ar­svæðinu, Reykja­nes­braut, Suður­lands­vegi og Vest­ur­lands­vegi. Á Suður­lands­vegi hef­ur aðskilnaður fækkað slys­um mikið og slysa­kostnaður á hvern ek­inn kíló­metra lækkað um 70%. Á Reykja­nes­braut hef­ur aðgerðin skilað mikl­um ár­angri og nú er haf­in vinna við aðskilnað akst­urs­stefna á Vest­ur­lands­vegi.

• Hring­torg skila bættu ör­yggi á hættu­leg­um gatna­mót­um á Hring­veg­in­um. Vegrið og lag­fær­ing­ar sem auka ör­yggi veg­far­enda eru aðgerðir sem kosta ekki mikið en vega sam­an­lagt þungt.

• Aukið hraðaeft­ir­lit, þ.m.t meðal­hraðaeft­ir­lit, sem mun fækka hraðakst­urs­brot­um og auka um­ferðarör­yggi. Með því er hægt að ná þeim sem freist­ast til að gefa í um leið og þeir aka fram­hjá mynda­vél og halda að þeir sleppi ef þeir hægja á sér við næstu mynda­vél. Hafi þeir verið grun­sam­lega fljót­ir á milli véla er nokkuð ljóst að þeir hafa farið yfir leyfi­leg hraðamörk. Slíkt meðal­hraðaeft­ir­lit hef­ur gefið góða raun í ná­granna­lönd­um okk­ar. Meðal­hraði á Hring­veg­in­um hef­ur lækkað um 5 km/​klst. frá 2004 en sú hraðalækk­un er tal­in fækka bana­slys­um um allt að 40% sam­kvæmt er­lend­um mæl­ing­um.

• Fræðsla til ferðamanna og annarra er­lendra öku­manna hef­ur haft mark­tæk áhrif og slys­um fækkað þó ferðamanna­fjöld­inn hafi auk­ist.

• Loks ber að nefna bíl­belta­notk­un öku­manna sem og farþega en því miður er bíl­belta­notk­un ábóta­vant, sér­stak­lega inn­an­bæjar. Það verður seint of oft sagt að bíl­belt­in bjarga.

Á und­an­förn­um árum hef­ur þeim fjölgað mikið sem nýta sér fjöl­breytta ferðamáta sam­hliða því að göngu- og hjóla­stíg­um hef­ur fjölgað, sem er vel. Nýj­um ferðamát­um fylgja nýj­ar hætt­ur sem krefjast þess að aðgát sé sýnd og fyllsta ör­ygg­is gætt. Við ber­um öll ábyrgð á eig­in ör­yggi og það er brýnt að for­eldr­ar fræði börn sín um ábyrgðina sem fylg­ir því að ferðast um á smáfar­ar­tækj­um.

Nú í upp­hafi ferðasum­ars vil ég óska öll­um veg­far­end­um far­ar­heilla. Mun­um að við erum aldrei ein í um­ferðinni, sýn­um aðgát, spenn­um belti og setj­um hjálm­ana á höfuðið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2021.

Categories
Greinar

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Deila grein

05/06/2021

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Sigl­ing­ar og sjó­mennska hafa alla tíð verið okk­ur Íslend­ing­um grund­völl­ur bú­setu á land­inu. Skipið er og var þar til á síðustu öld eina sam­skipta­tækið við um­heim­inn. Sjó­menn gegndu mik­il­vægu efna­hags­legu hlut­verki frá ör­ófa tíð og bægðu að auki hung­ur­vof­unni frá þegar ham­far­ir dundu yfir. Til þess að heiðra þetta dugnaðarfólk var í lög­um kveðið á um að fyrsti sunnu­dag­ur júní­mánaðar ár hvert skuli vera al­menn­ur frí­dag­ur sjó­manna og hef­ur hann verið hald­inn ár­lega frá 6. júní 1938. Alla tíð síðan hef­ur sjó­mannadag­ur­inn verið merkisat­b­urður í menn­ingu sjáv­ar­byggða. Það er því ærið til­efni til þess að senda öll­um sjó­mönn­um góðar kveðjur frá ráðuneyti sigl­inga­mála á þess­um degi.

Það sem af er þess­ari öld hef­ur at­vinnu­líf okk­ar tekið stakka­skipt­um og er orðið mun fjöl­breytt­ara en það breyt­ir því ekki að störf sjó­manna eru og verða okk­ur Íslend­ing­um mik­il­væg. Hluti af nýrri auðlegð teng­ist ekki síst afurðum frá fisk­veiðum sem áður var fleygt en færa nú gull í byggðir og nýja at­vinnu­mögu­leika fyr­ir ungt og vel menntað fólk. Næg­ir þar að nefna líf­tækniiðnaðinn sem nýt­ir slóg og roð í lyf, mat­væli og snyrti­vör­ur. Með slíkri þróun eykst enn mik­il­vægi þeirra sem sækja í þjóðarauðlind­ina, fisk­inn í haf­inu og skapa for­send­ur fyr­ir blóm­leg­ar byggðir um land allt.

Í starfi mínu sem ráðherra hafa sigl­inga­mál verið afar mik­il­væg. Þannig liggja fyr­ir Alþingi frum­vörp að nýj­um lög­um um skip sem og nýj­um lög­um um áhafn­ir. Ekki má gleyma að við höf­um gerst aðilar að og inn­leitt alþjóðleg­ar regl­ur um rétt­indi og ör­yggi áhafna flutn­inga­skipa. Í fáum starfs­grein­um eru kon­ur jafn fáar og í sigl­ing­um. Það hef­ur á und­an­förn­um árum verið sér­stök áhersla á að vekja at­hygli ungra kvenna á sigl­ing­um og sjó­mennsku sem at­vinnu. Þar er vígi að vinna og verðugt að minn­ast þess að meiri­hluta Íslands­sög­unn­ar sóttu kon­ur sjó­inn ekki síður en karl­ar.

Örygg­is­mál sjófar­enda eru mér hug­leik­in. Sjó­sókn er enn und­ir­stöðuat­vinnu­grein í þorp­um og bæj­um á lands­byggðinni. Það skipt­ir sköp­um í litl­um sam­fé­lög­um að ör­yggi sjó­manna sé sem best. Mikl­ar fram­far­ir hafa orðið í slysa­vörn­um á sjó, ekki síst með til­komu ör­ygg­is­áætl­un­ar sjófar­enda. Á síðustu árum hef­ur eng­inn far­ist á sjó, sem er gríðarleg fram­för, og slys­um fækkað. Þessi ár­ang­ur hef­ur vakið at­hygli víða um heim. Fyr­ir hon­um eru marg­ar ástæður en mig lang­ar sér­stak­lega að draga fram ómet­an­legt fram­lag Lands­bjarg­ar og Slysa­varna­skóla sjó­manna sem starf­rækt­ur er um borð í Sæ­björg. Rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa hef­ur held­ur ekki látið sitt eft­ir liggja í að leggja til úr­bæt­ur í ör­ygg­is­átt sem oft hafa orðið grunn­ur að auk­inni ör­yggis­vit­und sjó­manna og út­gerða. Ekki má held­ur gleyma vakt­stöð sigl­inga og Land­helg­is­gæslu sem ávallt standa vakt­ina og gæta sjófar­enda. Þá vil ég minn­ast á hags­muna­sam­tök sjófar­enda sem öll gegna mik­il­vægu hlut­verki við að upp­fræða sitt fólk. Mikl­ar um­bæt­ur hafa einnig orðið á upp­lýs­inga­kerf­um til sjófar­enda sem Vega­gerðin held­ur utan um og þróar. Veður­spár hafa verið efld­ar og upp­lýs­ing­ar um veður og sjó­lag, sjáv­ar­föll og öldu­spá eru sí­fellt upp­færðar og aðgengi­leg­ar sjófar­end­um um fjar­skipta­kerfi nán­ast hvar sem er við strend­ur lands­ins og á hafi úti. Með þess­um góðu kerf­um tryggj­um við sigl­inga­ör­yggi eins og best verður á kosið.

Í dag er enn eitt fram­fara­skrefið stigið en þá mun rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa veita mót­töku slysa- og at­vika­skrán­ing­ar­kerf­inu „At­vik Sjó­menn“ að gjöf frá VÍS en með því verður þetta góða kerfi opið öll­um sjó­mönn­um og út­gerðum lands­ins sem von­andi auðveld­ar inn­leiðingu ör­ygg­is­stjórn­un­ar um borð í ís­lensk­um fiski­skip­um. Þess má geta að grunn­ur að ör­ygg­is­hand­bók fyr­ir fiski­skip hef­ur verið unn­inn á veg­um fagráðs um sigl­inga­mál, sigl­ingaráðs, og er aðgengi­leg­ur öll­um. Þá vil ég vekja at­hygli á styrkj­um til hug­vits­manna með það mark­mið að þróa og auka ör­yggi sjófar­enda en þeir eru nú laus­ir til um­sókn­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar á um­hverfi sigl­inga við landið. Kom­um farþega­skipa hef­ur fjölgað gríðarlega og fisk­eldi og náma­vinnsla í hafi auk­ist, sem ásamt fleiri nýj­ung­um gera aðrar kröf­ur til hafn­araðstöðu. Í þeirri sam­göngu­áætlun sem nú er í vinnslu er því gert ráð fyr­ir auknu fram­lagi til hafna. Á tím­um hraðra um­hverf­is­breyt­inga er ljóst að um­hverfið við strend­ur lands­ins mun breyt­ast mikið á kom­andi árum. Með hækk­andi sjáv­ar­stöðu aukast þarf­ir fyr­ir sjóvarn­ir og aðlög­un mann­virkja. Sam­tím­is hafa verið stig­in skref til að auka sigl­inga­ör­yggi og sigl­inga­vernd, sem og rétt­indi áhafna í hverf­ul­um heimi.

Á sjó­manna­deg­in­um er ástæða til þess að rifja upp allt það sem áunn­ist hef­ur í ör­ygg­is­mál­um og minna sjó­menn á að þeir eiga hauk í horni þar sem eru starfs­menn sam­gönguráðuneyt­is og þeirra stofn­ana sem fara með sigl­inga­mál. Þá er sigl­ingaráð mik­il­væg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur sam­taka sjó­manna og annarra hags­munaaðila við sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið og legg­ur ráðuneytið ríka áherslu á mik­il­vægi þess.

Að lok­um óska ég sjó­mönn­um og sam­tök­um þeirra og út­vegs­manna far­sæld­ar í mik­il­væg­um störf­um í þágu sjó­mennsku og sigl­inga.

Það er ávallt þörf á því að halda gang­andi umræðunni um ör­ygg­is­mál sjó­manna og halda áfram þeirri vinnu sem unn­in er í þágu ör­ygg­is­ins.

Ég óska öll­um sjó­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra til ham­ingju með dag­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2021.

Categories
Greinar

Vegir hálendisins

Deila grein

28/05/2021

Vegir hálendisins

Framtíðarsýn fyrir þjóðvegi á hálendinu er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr. Viðfangsefnið er spennandi þar sem margir ólíkir hagsmunir koma að. Vegakerfið á þjóðvegum landsins fylgir ákveðinni stefnu í samgönguáætlun, en á hálendinu eru tækifæri til að móta skýra sýn. Hægt er að fara margar leiðir í því. Á meðan uppbygging vega er þyrnir í augum sumra er hún tækifæri í augum annarra sem vilja gott aðgengi að hálendi Íslands, óháð fararskjótum. Í mínum huga er mikilvægt að móta framtíðarsýn um það hvaða vegi við viljum að séu greiðfærir og uppbyggðir svo allir komist og hvaða vegi við viljum að aðeins að vel útbúnar bifreiðar komist yfir.

Aðgengi fyrir alla

Með auknum ferðalögum fólks inn á hálendi Íslands og fjölgun ferðamanna undanfarinn áratug hafa augu fólks opnast fyrir nauðsyn þess að byggja upp innviði á hálendinu. Stofnvegirnir eru lífæð hálendisins, Kjalvegur, Sprengisandsleið, Kaldadalsvegur og Fjallabaksleið Nyrðri eiga að geta þjónað allri almennri umferð. Vegirnir eru núna lítið sem ekkert uppbyggðir og aðeins færir vel búnum bifreiðum. Töluvert vantar upp á að allir hafi jafnan aðgang og geti upplifað dulmögnuð svæði hálendisins.

Sú stefna sem er sett fram í landsskipulagsstefnu um samgöngur á miðhálendinu byggist á þeirri stefnu sem sett var með svæðisskipulagi miðhálendisins. Þar var gert ráð fyrir að stofnvegir um miðhálendið skyldu vera byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum.

Kjalvegur

Kjalvegur er til að mynda stofnleið með töluverða umferð, þverar landið frá suðri til norðurs og er annar tveggja þekktustu fjallvega landsins. Vegurinn er að stærstum hluta malarvegur. Annars vegar eru rúmlega 53 km niðurgrafnir, krókóttir og sums staðar mjór. Hins vegar hafa rúmlega 107 km verið byggðir upp, þar af tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Umferð um Kjöl hefur aukist. Svæðið er magnað eins og við þekkjum, vinsælt útivistarsvæði og dregur að sér fjölbreyttan hóp ferðamanna, hestafólk, göngufólk, skíðafólk, hjólafólk, þá sem fara um á bifreiðum o.fl. Víða myndast stórir pollar í vegum hálendisins sem gerir það að verkum að menn leita út fyrir þá og er því töluverður utanvegaakstur meðfram þeim. Með ört vaxandi umferð er mikilvægt að hægt sé að gera lagfæringar og hugsa til framtíðar eins og Vegagerðin hefur gert, í þeim tilgangi að gera viðhald auðveldara, með því að vinna að styrkingu og lítillega að uppbyggingu, þó aðeins á stuttum köflum í senn.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar við miðhálendisþjóðgarð

Þingflokkur Framsóknar fjallaði um uppbyggingu Kjalvegar í fyrirvörum sínum við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvara um að nauðsynlegt sé að viðurkenna og setja inn í frumvarpstexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Einnig voru fyrirvarar um að jaðarsvæðið taki tillit til uppbyggingar Kjalvegar og skipulags annarra vega með beinni skírskotun til skipulags og umráðaréttar sveitarfélaga.

Orkuskipti

Þá staðfesti ég fyrir tveimur árum síðan samning við Neyðarlínuna um lagningu ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals. Að því verkefni loknu komst á óslitin ljósleiðaratenging milli Suðurlands og Norðurlands sem bætir bæði öryggi og afkastagetu grunnkerfis fjarskipta hér á landi. Samhliða lagningu ljósleiðara um Kjöl var lagður raforkustrengur sem leysir af hólmi dísilvélar sem rekstraraðilar hafa hingað til reitt sig á. Raforkustrengurinn er liður í því að tryggja að Ísland nái  markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030 og markar framtíðarsýn fyrir Kjöl og þá uppbyggingu þarf að vera til staðar svo flestir geti notið þess að fara um á fjölbreyttum fararskjótum. Rafstrengurinn er með flutningsgetu sem í náinni framtíð verður hægt að nýta til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafknúna umferð um Kjalveg. Og vegna þess að við erum jú í orkuskiptum í samgöngum verða innviðirnir að haldast í hendur við nýja tíma því innan fárra ára verðar flestir bílar rafmagnsbílar.

Öryggi umfram allt

Ef horft er til umfangs ferðamennsku á hálendinu er það brýnt öryggismál í mínum huga að innviðir, hvort um er að ræða vegi eða fjarskipti geti þjónað þeim sem um svæðið fara. Til að hægt sé að uppfylla kröfur um að allir hafi sama aðgang og uppfylla ákvæði vegalaga um frjálsa för fólks um þjóðvegi þá þarf uppbygging innviða að miðast við að rafmagnsbílar komist um, hvort sem um er að ræða fólksbíla, jeppa eða rútur seinna meir. Rafstrengurinn á Kjalvegi boðar byltingu og dísilolía á tunnum heyrir nú sögunni til. Enginn þarf lengur að koma að köldum og saggafullum húsum utan mesta hlýindatímans. Þetta skapar alveg nýja möguleika og tækifæri fyrir fólk til að njóta útivistar á hálendinu. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að njóta hálendisins, því hvergi er betra að vera, hvort sem er ríðandi eða akandi, við smalamennsku eða sem ferðamaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 27. maí 2021.

Categories
Greinar

Við sjáum til lands

Deila grein

01/05/2021

Við sjáum til lands

Hún var hátíðleg og hjartnæm stundin sem við urðum vitni að í fréttum í vikunni þegar brast á með miklu lófaklappi þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir mætti í Laugardalshöll í bólusetningu. Það var verðskuldað. Það er líka einstaklega ánægjulegt að fylgjast með hversu vel bólusetningar ganga og ekki síst fagmennskuna og skipulagið hjá heilbrigðisstarfsfólkinu okkar og þeim sem koma að almannavörnum.

Bólusetningarmyndir hafa leyst eldgosamyndirnar af hólmi á samfélagsmiðlum. Hvort tveggja er stórkostleg upplifun. Annars vegar er það ægikraftur náttúrunnar og hins vegar kraftur vísinda og samvinnu.

Við klárum leikinn saman

Í gær samþykkti ríkisstjórnin nýjar aðgerðir sem er ætlað að klára leikinn eins og við í Framsókn höfum orðað það. Þessar aðgerðir bætast á lista umfangsmikilla aðgerða sem hafa skipt sköpum í því að tryggja heilsu og afkomu landsmanna síðasta árið. Styrkur til þeirra sem hafa verið atvinnulausir í lengri tíma, barnabótaauki til þeirra sem lægstar tekjur hafa, tímabundin hækkun framfærslu námsmanna, aukinn stuðningur í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna um allt land, rýmkun á viðspyrnustyrkjum, styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall, ný ferðagjöf og framlenging á stuðningi við íþróttafélög. Allt eru þetta aðgerðir sem munu styrkja samfélagið síðustu mínútur leiksins.

Atvinna, atvinna, atvinna

Ríkisstjórnin brást hratt og örugglega við því frosti sem varð í ferðaþjónustu fyrir ári síðan. Stærsta og mikilvægasta aðgerðin þá var hlutabótaleið félags- og barnamálaráðherra sem gerði fólki og fyrirtækjum kleift að viðhalda ráðningarsambandinu og halda úti lágmarksstarfssemi. Stærsta aðgerðin sem kynnt var í gær er styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall. Þessi aðgerð gerir það að verkum að þeir fjölmörgu sem er á hlutabótum og vinna 50% verða ráðnir í fyrra starfshlutfall með stuðningi ríkisins, ganga í raun inn í þá stóru og merkilegu aðgerð sem kynnt var fyrir skömmu undir heitinu Hefjum störf. Þessar aðgerðir eru mikilvægur liður í viðspyrnu fyrir Ísland og því að skapa störf og hefja störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Landsýn

Við sjáum til lands. Stundin er að renna upp, stundin sem við höfum beðið eftir síðan heimsfaraldurinn skall á með öllu sínu tjóni á heilsu og hag fólks um allan heim. Allt síðasta ár hefur verið helgað baráttunni við faraldurinn, helgað því að vernda heilsu fólks og afkomu og því að tryggja hraða og markvissa viðspyrnu fyrir Ísland. Augnablikið þegar allt horfir til betri vegar er ekki síst upplifun okkar hvers og eins þegar við fáum stunguna í öxlina, þegar við sjáum fram á að losna við óttann við veiruna, ótta sem snýst ekki aðeins um okkur sjálf heldur ekki síst um ástvini okkar.

Ég er stoltur af þjóðinni okkar. Á erfiðum tímum, tímum þegar faraldurinn hefur ógnað heilsu okkar og okkar nánustu, hefur þjóðin staðið saman og mætt erfiðleikum af einurð og styrk. Sól hækkar á lofti, hópur bólusettra stækkar, atvinnulausum fækkar. Við horfum bjartsýn fram á veginn og klárum leikinn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna

Deila grein

23/04/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna

Í lok þessa mánaðar mun ég staðfesta síðustu samn­inga rík­is­ins við sveit­ar­fé­lög á grund­velli sam­vinnu­verk­efn­is­ins Ísland ljóstengt, en um það verk­efni hef­ur ríkt þver­póli­tísk samstaða. Margt má læra af skipu­lagi og fram­kvæmd þessa verk­efn­is sem ég lagði horn­stein að með grein minni „Ljós í fjós“ árið 2013. Það vega­nesti þurf­um við að nýta við áfram­hald­andi upp­bygg­ingu fjar­skiptainnviða á landsvísu. Fjar­skiptaráð, sem starfar á veg­um sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is­ins, fundaði ný­verið með öll­um lands­hluta­sam­tök­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins um stöðu og áskor­an­ir í fjar­skipt­um. Niðurstaða þess­ara funda var m.a. sú að áskor­an­ir eru ekki alls staðar þær sömu þó að brýn­asta úr­lausn­ar­efnið sé hið sama um allt land, en það er ljós­leiðara­væðing byggðakjarna.

Stóra mynd­in í ljós­leiðara­væðingu lands­ins er sú að eft­ir sitja byggðakjarn­ar vítt og breitt um landið, sem hafa ekki aðgang að ljós­leiðara nema að tak­mörkuðu leyti. Það er ein­fald­lega ekki boðleg staða á fyrstu árum fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar. Skila­boð sveit­ar­fé­laga eru af­drátt­ar­laus og skýr í þess­um efn­um – það er for­gangs­mál að ljós­leiðara­væða alla byggðakjarna.

Í ný­legri grein okk­ar Jóns Björns Há­kon­ar­son­ar, for­manns fjar­skiptaráðs, und­ir yf­ir­skrift­inni „Ísland full­tengt – ljós­leiðari og 5G óháð bú­setu“, er kynnt framtíðar­sýn um al­menn­an aðgang heim­ila og fyr­ir­tækja að ljós­leiðara án þess þó að fjalla um hvernig sam­fé­lagið geti náð henni fram. Tíma­bært er að taka upp þann þráð. Eft­ir því sem nær dreg­ur verklok­um í Ísland ljóstengt er oft­ar spurt hvort ríkið ætli að láta sig ljós­leiðara­væðingu byggðakjarn­anna varða og þá hvernig. Fram til þessa hef ég talið mik­il­vægt að draga ekki at­hygli sveit­ar­fé­laga of snemma frá ljós­leiðara­væðingu dreif­býl­is­ins, sem hef­ur reynst tölu­verð áskor­un, einkum fyr­ir minni og dreif­býlli sveit­ar­fé­lög. Von­ir stóðu til þess að ljós­leiðara­væðing byggðakjarna færi fram sam­hliða Ísland ljóstengt-verk­efn­inu á markaðsleg­um for­send­um en sú upp­bygg­ing hef­ur því miður ekki gengið eft­ir sem skyldi.

Ég hyggst svara ákalli um ljós­leiðara­væðingu byggðakjarna og leggja grunn að nýju sam­vinnu­verk­efni, Ísland full­tengt, í sam­ræmi við mark­mið fjar­skipta­áætl­un­ar um að ljúka ljós­leiðara­væðingu lands­ins alls fyr­ir árs­lok 2025. Fjar­skiptaráði og byggðamálaráði hef­ur þegar verið falið að greina stöðuna á landsvísu í sam­vinnu við Póst- og fjar­skipta­stofn­un, í því skyni að und­ir­byggja val­kosti og ákvörðun­ar­töku um aðkomu stjórn­valda að einu brýn­asta byggðamáli sam­tím­ans.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl 2021.

Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Deila grein

11/03/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Öflugir fjarskiptainnviðir eru forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Ísland er í röð fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum samkvæmt mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Sú staða er ómetanleg en enginn endapunktur því tækninni fleygir fram og nýjar áskoranir blasa við. Þörf er á metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir útbreiðslu og áreiðanleika fjarskipta um land allt nú þegar landsátakinu Ísland ljóstengt, sem á stóran þátt í að þessari góðu stöðu, fer að ljúka.

Landsátakið Ísland ljóstengt og uppbygging opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum er lýsandi dæmi um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og heimafólks til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs seinna í þessum mánuði hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. 

Rúmt ár er síðan óveður afhjúpaði veikleika í raforkukerfinu sem olli truflun á fjarskiptum einkum á Norðurlandi og Austurlandi. Brugðist var hratt við og hafa stjórnvöld þegar m.a. bætt varaafl á rúmlega 68 fjarskiptastöðum víða um land. Framhald verður á verkefninu í ár í samvinnu fjarskiptasjóðs sem leggur til fjármuni og Neyðarlínunnar sem sér um framkvæmdir. Öryggiskröfur samfélagsins eru einfaldlega ríkari en það sem fjarskiptafyrirtæki eru skuldbundin til að gera eða geta tryggt á markaðslegum forsendum, einkum á landbyggðinni.

Fyrirsjáanleiki aðalatriði

Fólk vill aðgang að nýjustu og bestu fjarskiptaþjónustu hverju sinni og gerir jafnframt kröfu um að þjónustan sé áreiðanleg, örugg og á viðráðanlegu verði. Regluverkið, með áherslu á samkeppni og markaðslausnir, tryggir það upp að vissu marki. Þolinmæði gagnvart óvissu og bið eftir markaðslausnum er þó á undanhaldi.

Áhyggjur íbúa utan helstu þéttbýlissvæða hafa lengi snúist um hvort ljósleiðarinn eða nýjar kynslóðir farneta verði yfir höfuð í boði. Vissan fyrir því að ljósleiðarinn komi á grundvelli Ísland ljóstengt, hefur skapað ákveðna sátt og skilning gagnvart því að slík uppbygging getur ekki átt sér stað samtímis um allt land. Einhver byggðarlög verða á undan öðrum. Stóra málið er fyrirsjáanleiki um að ljósleiðarinn sé í það minnsta á leiðinni.

Kveikjan að Ísland ljóstengt var framtíðarsýn og markmið stjórnvalda um að ljósleiðaravæða dreifbýlið. Það gleðiefni að sjá nú fyrir endann á þessu samvinnuverkefni sem hornsteinn var lagður að með blaðagrein sem birtist 30. mars 2013 undir yfirskriftinni „Ljós í fjós“.

Landsdekkandi þráðlaus fjarskiptakerfi í opinberri eigu

Þó að 5G uppbygging sé ekki mjög brýn í þeim afmarkaða tilgangi að auka bandbreidd hér á landi, er sannarlega tímabært að huga að almennum markmiðum og aðgerðum til þess að gera samfélagið í stakk búið að hagnýta þá fjölbreyttu þjónustu sem 5G gerir mögulega á næstu árum.

Við þessi tímamót er viðeigandi að setja fram nýja framtíðarsýn sem er verðugur arftaki „Ljós í fjós“.

Neyðarlínan, sem er í opinberri eigu, á og rekur landsdekkandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA fyrir neyðar- og viðbragðsaðila af miklum myndarskap. Hugað er nú að endurnýjun eða arftaka þess kerfis hér á landi, í Noregi og víðar.

Rekstur fjarskiptaaðstöðu og sendakerfa reynist Ríkisútvarpinu umtalsverð áskorun og tímabært er fyrir félagið að huga að endurnýjun/arftaka eigin og útvistaðra sendakerfa.

Margt bendir til þess að 5G tæknin geti hæglega leyst þarfir þeirra sem nýta TETRA og RÚV til framtíðar er varðar þráðlaus fjarskipti eða útsendingar. Í því felast tækifæri til tækniuppfærslu og hagræðingar. Fátt bendir til þess að skynsamlegt sé fyrir opinbera aðila að reka mörg sjálfstæð þráðlaus fjarskiptakerfi með háu öryggisstigi til framtíðar á sömu svæðum.

Ljósleiðari og 5G í byggðakjörnum

Ljósleiðaravæðing landsins heldur áfram og eru það eingöngu byggðakjarnar á landsbyggðinni sem búa nú við óvissu um hvort eða hvenær röðin kemur að þeim og á hvaða forsendum. Búast má við að fyrirhugað útboð á tveimur NATO-ljósleiðurum verði útfært m.a. með aukna samkeppni á landshringnum í huga og hvata til ljósleiðarauppbyggingar fjarskiptafyrirtækja í byggðakjörnum. Sú ljósleiðaravæðing, og þar með landsins alls, gæti því verið langt komin fyrir lok næsta kjörtímabils.

Líklegt er að uppbygging 5G gagnvart helstu þéttbýlissvæðum fari fram á markaðslegum forsendum og án sérstakra opinberra hvata. Slík uppbygging er hafin. Fyrirsjáanleiki í uppbyggingu markaðsaðila á 5G gagnvart litlum byggðakjörnum og utan þéttbýlis er hins vegar minni. 

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Á kjörtímabilinu hefur margt áunnist, hvort tveggja er varðar uppfærslu regluverks fjarskipta og netöryggis og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Tímabært er að leggja línur fyrir nýja framsókn í fjarskiptum. Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu.

Með slíkri framtíðarsýn og tilheyrandi aðgerðum væri óvissu eytt um það hvort fólk, óháð búsetu, fái notið þeirrar þjónustu sem verður forsenda og hvati samfélagslegra framfara og nýsköpunar um land allt í fyrirsjáanlegri framtíð. Standi hún til boða er eðlilegt að hún verði jafnframt áreiðanleg, örugg og á sanngjörnu verði.

Á svæðum þar sem forsendur fyrir samkeppni í innviðum er ekki til staðar virðist vera skynsamlegt að byggja og reka eitt gott dreifikerfi sem bæði opinberir aðilar og markaðsaðilar geta nýtt. Hagkvæmni í innviðauppbyggingu skiptir máli. Kominn er tími til að opinberir aðilar sem eiga og reka fjarskiptainnviði ræði uppbyggingu fjarskiptainnviða til framtíðar og ákveðið verði hvernig hið mikilvæga hlutverk þeirra og samspil verður útfært með hliðsjón af heildstæðri framtíðarsýn og áherslu á byggðasjónarmið. Þar gæti komið til greina full sameining eða verulega aukið samstarf fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu.

5G verður bráðlega nauðsynleg innviðaþjónusta gangi spár eftir. Verður nokkurs konar grunnþjónusta og því enn ríkari ástæða til þess að setja fram heildstæða nálgun þess hvernig við ætlum að tryggja þá grunnþjónustu íslensku samfélagi til hagsbóta, óháð búsetu. Sundabraut verður ekki byggð á einum degi og það sama á við um 5G þjónustu um land allt, en framtíðarsýnin og markmiðin þurfa að vera skýr.

Verkefnið hlýtur að vera að tryggja fyrirsjáanleika í aðgengi, öryggi og verðlagningu 5G þjónustu gagnvart byggð, atvinnulífi, samgöngum og samfélagslega mikilvægum svæðum á landsbyggðinni sem og annars staðar. Einn lykill að þeirri vegferð er að nýta tækifæri til uppfærslu og langtíma hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri landsdekkandi þráðlausra fjarskiptakerfa opinberra aðila, þ.m.t. Neyðarlínu og Ríkisútvarps. Annar lykill er að auka samvinnu og samþætta starfsemi fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu þannig að styðji við þessa vegferð, þ.m.t. að efla fjarskiptaaðstöðu og ljósleiðarastofnnet um landið.

Valkostir við uppbyggingu á landsbyggðinni

Fyrir liggur hvert viðfangsefnið er en ekki hvernig eigi að leysa það. Líkt og oftast eru valkostir í þeim efnum.

Nýstárlegur valkostur væri að efla Neyðarlínuna og fela henni að byggja og reka 5G kerfi, a.m.k. á markaðsbrestssvæðum, sem leysti af TETRA og kerfi RÚV á þeim svæðum. Með því gæti skapast möguleiki fyrir markaðsaðila að semja um aðgang að öruggum 5G sendum Neyðarlínunnar og möguleiki fyrir Neyðarlínuna að semja um aðgang að öruggum 5G sendum markaðsaðila á markaðssvæðum þeirra.

Aðrir hefðbundnari valkostir koma til greina, t.d. væri hægt að bíða og sjá hvað markaðsaðilum hugnast að gera á næstu árum. Þar má horfa til aukins samstarfs og samnýtingar við innviðauppbyggingu og jafnvel bjóða út 5G þjónustu svæðisbundið. Einnig mætti fela markaðsaðilum með útboðsleið að leysa verkefni Neyðarlínunnar og RÚV heildstætt um allt land með 5G og svo framvegis.

Það eru sem sagt fleiri en einn valkostur um leiðir og gaumgæfa þarf útfærslu þeirra. Aðalatriðið er að sammælast um það markmið að ná samlegð, hagræði og auknu öryggi með þróun kerfa RUV og Neyðarlínunnar í ljósi þeirrar 5G uppbyggingar sem fyrir dyrum stendur, almenningi í landinu öllu til heilla.

Áfram veginn

Greina þarf og bera saman mismunandi leiðir til að ná fram þeirri framtíðarsýn sem lögð er hér fram, Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu. Þær hafa tiltekna kosti og galla, mismunandi eftir því hver metur. Hér er ekki talað fyrir almennri ríkisvæðingu fjarskipta, heldur raunsæi gagnvart þeim fyrirsjáanlega markaðsbresti sem verður m.a. í uppbyggingu framtíðarkerfa og ekki síst 5G innviða. Þróunin er ör og mikilvægt er að taka verkefnið traustum tökum. Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er hafin og því er tímabært að ræða um sameiginlega framtíðarsýn fyrir samfélagið og færar leiðir. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og formaður Fjarskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2021.

Categories
Greinar

Sjálfsögðu hlutirnir

Deila grein

18/02/2021

Sjálfsögðu hlutirnir

Lífsgæði, hagsæld, og staða innviða eru nátengd hvert öðru. Í gegnum tíðina höfum við líkast til farið að taka því sem gefnum hlut að búa við trausta og góða innviði, hafa heimilið upplýst allan sólarhringinn, alla daga ársins, vera með háhraða nettengingu, jafnvel víðs fjarri þéttbýli og að úr krananum renni bæði heitt vatn og kalt. Besta neysluvatn í heimi, fyrir 0 krónur. Að við komumst ferðar okkar að vild, bæði innanlands og utan. Að vísu skal það viðurkennt að við höfum ekki enn fundið endanlega lausn á ófærð, en við gerum okkar besta.

En svo gerist allt í einu eitthvað sem fær okkur til að staldra við og muna hvílík verðmæti þetta eru. Á landinu skellur stormur og í nokkra daga missir hluti landsmanna aðgang að hluta þessara innviða; vegir loka, rafmagnið dettur út og fjarskiptasamband rofnar. Algjört neyðarástand skapast. Ástand sem ekki er hægt að sætta sig við.

Endurreisn

Samtök iðnaðarins gaf út innviðaskýrslu árið 2017 í aðdraganda síðustu kosninga. Það var ljómandi góð tímasetning. Í mínum augum var sú skýrsla mjög gagnlegt því hún dró upp mynd af innviðum landsins í sennilega því slakasta ástandi sem þeir hafa verið í langan tíma. Árin á undan, allt frá bankahruni, voru ár vanfjárfestingar í samgönguinnviðum og þeir liðu fyrir og létu á sjá.

Þeir innviðir sem undir mitt ráðuneyti heyra, þjóðvegir, hafnir og flugvellir fengu ekki háa einkunn þá.

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var kveðið á um nauðsynlega endurreisn íslenskra samgönguinnviða þar sem uppbyggingu væri hraðað, bæði í nýbyggingu og viðhaldi. Frá því ég tók við embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa framlög í samgönguframkvæmdir aukist hratt.

Vegir, hafnir, flugvellir

Árið 2016, ári áður en umrædd skýrsla kom út, voru heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins 16,4 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Þar af fóru rúmir 6 milljarðar í viðhald. Framlög til viðhalds höfðu haldist á bilinu 4,5-6 milljarðar frá 2010 og jafnvel lengur.

Í ár erum við að gera ráð fyrir að heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins verði 35,5 milljarðar, þar af 11 milljarðar í viðhald, sjá meðfylgjandi töflu.

Framlög til hafnarframkvæmda úr hafnarbótasjóði voru 660 milljónir 2016 og 412 milljónir árið 2017. Á þessu ári verða framlögin rúmir 1,6 milljarðar.

Framlög til flugvalla og flugleiðsögu voru rúmir 1,9 milljarðar 2016 og 1,8 árið 2017. Á þessu ári verða framlögin 4,4 milljarðar. Allar þessar upphæðir eru á sama verðlagi og skiptast í viðhald og nýframkvæmdir í samræmi við ráðgjöf og forgangsröðun þeirra sem til þekkja.

Áfram veginn

Tveimur samgönguáætlunum og einu fjárfestingarátaki síðar fullyrði ég að staðan nú er allt önnur og betri. Það besta er að við erum rétt að byrja. Á næstu árum höfum við lagt grunn að  miklum uppbyggingaráformum um allt land. Nýtum við þar öll trixin í bókinni; stóraukin bein framlög til framkvæmda, þjónustu og viðhalds, aukin þátttaka einkaaðila og einkafjármagns með hinni svokölluðu samvinnuleið (PPP) ásamt möguleika á að nýta sértæka gjaldtöku til enn frekari framfara. Ég ætla að leyfa mér að slá því föstu að næstu 15 ár verði tímabil framfara og uppbyggingar sem muni búa í haginn fyrir hagvexti morgundagsins og lífskjörum framtíðar kynslóða þessa lands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Frelsi og fjötrar

Deila grein

10/02/2021

Frelsi og fjötrar

Víðtæk sátt þarf að nást um hálendisþjóðgarð allra Íslendinga eigi hann að verða að veruleika. Málið er umdeilt og sjónarmið eru margvísleg og því brýnt að vanda til undirbúnings með hliðsjón af því markmiði sem sátt verður um. Óheft aðgengi að miðhálendinu eru verðmæti í hugum almennings sem hefur kynnst náttúru og menningu og haft frelsi til athafna og upplifunar. Hefðbundin landnýting og nytjar hafa verið stundaðar á hálendi Íslands í hundruði ára og hafa margar hverjar menningarlegt gildi. Þannig er svæðið mikilvægt fyrir það fólk sem hefur um áraraðir haft umsjón með hálendinu, sinnt því af trúmennsku og á faglegan hátt. Þá sé um að ræða eitt mikilvægasta útivistarsvæði almennings til ýmissa nytja og afþreyingar.

Vernd og nýting

Almennt má segja að mikilvægt er að vernda viðkvæma hluta landsins, nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt og um leið að auðvelda fólki að upplifa og njóta frelsis í náttúrunni. Samvinna þarf að vera um vernd og nýtingu miðhálendisins eins og annars lands í sameign þjóðarinnar.

Í stjórnarsáttmálanum var fjallað um að stofnaður yrði þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Í stjórnarsáttmálanum var ekki tilgreint um stærð þjóðgarðs né stjórnfyrirkomulagið. Því fór það svo að þingflokkur Framsóknar lagðist gegn óbreyttu frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Fyrirvararnir lúta að stærðartakmörkunum, valdi sveitarfélaga, frjálsri för, orkunýtingu ofl.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar

Ein nálgun gæti verið að byrja smátt í stað þess að teygja sig yfir stórt svæði en fyrirhuguð stærð hálendisþjóðgarðs nær yfir 30% af Íslandi með snertiflöt við mörg sveitarfélög sem liggja að þjóðgarðsmörkum. Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á að þau sé höfð með í ráðum og að samþykki þurfi frá viðeigandi sveitarstjórnum um nákvæma afmörkun og skiptingu svæða í verndarflokka. Já, áskoranir eru margar. Til að mynda er töluverð áskorun að koma á stjórnunarfyrirkomulagi Hálendisþjóðgarðs sem nær á fullnægjandi hátt til allra sjónarmiða sem eiga erindi í stefnumótun og ákvarðanatöku sem og valdsvið umdæmisráða. Þá er óvíst hvernig farið verður með valdheimildir einstakra sveitafélaga yfir eigin mannvirkjum og öðrum eignum innan þjóðgarðsins.

Frjáls för

Enn er mörgum spurningum ósvarað um reglugerðir sem á eftir að semja, til dæmis um umferð og dvöl á hálendinu. Þingflokkur Framsóknar leggur því áherslur á að tryggja þurfi frjálsa för almannaréttar þannig að gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi geti ferðast eins og nú um þjóðgarðinn án takmarkana. Margvísleg sjónarmiðið eru um útfærslur á stjórnun og vernd hálendisins en flest eiga þau það sameiginlegt að bera hag hálendisins og þar með landsins alls fyrir brjósti. Fólk sem býr við jaðar hálendisins ber sterkar taugar til þess líkt og þeir sem búa fjarri hálendinu. Skilningur á náttúrunni gerist best með umgengni við landið og skynsamlegri nýtingu þeirra er það byggja. Mikilvægt er að hlusta vel á þessar raddir og virða tilfinningar þeirra sem láta sig málið varða áður en ákvörðun er tekin um svæði sem spannar um þriðjung af Íslandi.

Kjalvegur

Til að tryggja aðgengi að miðhálendinu er nauðsynlegt að viðurkenna og setja inn í lagatexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Jafnframt þarf að liggja fyrir að skipuleggja eigi aðra vegi með beinni tilvísun til skipulags og valdheimilda einstakra sveitarfélaga á sínu svæði. Einnig er óljóst með núverandi starfsemi einkaaðila og sveitarfélaga við hugmyndir um starfsemi og fjármögnun þjóðgarðs. Þá gerir þingflokkur Framsóknar fyrirvara um að afmarka þurfi orkuvinnslusvæði, svæði í biðflokki í rammaáætlun 3 og flutningsleiðir raforku á miðhálendinu, hvort sem þau verða innan eða utan þjóðgarðs.

Samtalið

Að þessu sögðu er umtalsverð vinna eftir sem verður ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mánuðum. Samtalið sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur átt um allt land þarf að halda áfram því enn er langt í land ef áformin eiga ná að verða að veruleika. Alls bárust 149 umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur nú málið til umfjöllunar. Umsagnirnar koma víða að úr þjóðfélaginu sem ber þess merki að almenningi er virkilega annt um að ekki verði gerðar stórar breytingar eða byltingar sem skerða frelsi og lífsgæði fólks. Lífsgæði Íslendinga byggjast á því að skapa tækifæri af þeim verðmætum sem landið gefur okkur á sjálfbæran hátt. Landnýting þjóðgarðs er stór ákvörðun sem þarfnast víðtækrar sáttar.

Hálendið er ekki í hættu. Á síðustu árum hefur ríkt víðtæk sátt um að hálendið sé mikilvægur hluti af landinu, af okkur sjálfum. Þeir fyrirvarar sem við í Framsókn setjum fyrir framhaldinu snúast um að varðveita þá sátt, þann frið, sem ríkir um hálendið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni á Suðurlandi 10. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Fjarfundafært

Deila grein

27/01/2021

Fjarfundafært

„Þú ert á mjút“ er líklega setning síðasta árs, enda hefur fjarfundaformið rutt sér hratt og örugglega til rúms sem viðbragð við samkomutakmörkunum. Þessi hraða þróun í fjarfundum mun ef laust nýtast okkur til frambúðar af því að þetta form nýtist einkar vel í stóru og dreif býlu landi. Við höfum ekki aðeins nýtt fjarfundina í vinnunni heldur hefur netið verið mikilvægur gluggi milli fjölskyldu og vina á erfiðum tímum.

Það er ekki langt síðan samfélagið og atvinnulífið hefði lamast algjörlega við samkomutakmarkanir eins og þær sem við höfum búið við að mestu síðasta árið. Lykillinn að því að allir þessir fjarfundir, oft landshorna á milli, hafa getað farið fram, er sú mikla uppbygging sem hefur verið í ljósleiðaratengingum um allt land. Sú stefna sem síðar fékk nafnið Ísland ljóstengt, á upphaf sitt í grein sem ég skrifaði árið 2013 og bar yfirskriftina „Ljós í fjós“. Því verkefni lýkur á þessu ári og þá verða yfir 99% heimila og fyrirtækja með ljósleiðaratengingu, sem er samkvæmt síðustu upplýsingum einsdæmi í heiminum.

Byggðamálin hafa lengi verið mér sérstaklega hugleikin. Það er mikilvægt að þau skilyrði séu sköpuð að fólk geti búið og starfað um allt land. Nú stendur yfir vinna við metnaðarfulla byggðaáætlun sem lögð verður fyrir þingið á vormánuðum. Sú áætlun sem nú er í gangi hefur reynst vel og náðst að sameina krafta ólíkra aðila í því að hugsa um hvað það er sem þarf til að byggðir geti dafnað á ólíkum stöðum. Byggðaáætlun er þó ekki eina áætlunin sem snýr að blómlegum byggðum um allt land því samgöngur og fjarskipti leika þar lykilhlutverk. Stórsókn í samgöngum er hafin og metnaðarfullar áætlanir eru um áframhaldandi eflingu fjarskipta um allt land.

Það er aðeins ein leið út kófinu: Áfram, áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2021.

Categories
Greinar

Nýtt ár og ný framsókn fyrir landið allt

Deila grein

02/01/2021

Nýtt ár og ný framsókn fyrir landið allt

Ég kom heim úr vinnu einn dag­inn og brotnaði niður og gat ekki hætt að gráta.“ Þetta sagði Anna Sig­ríður Sig­urðardótt­ir í viðtali við Frétta­blaðið rétt fyr­ir jól­in. Í viðtal­inu lýs­ir hún því þegar snjóflóð féll á húsið henn­ar á Flat­eyri í janú­ar síðastliðnum. Dótt­ir Önnu Sig­ríðar bjargaðist giftu­sam­lega úr flóðinu sem fyllti her­bergið henn­ar. Í viðtöl­um strax eft­ir þetta áfall vakti það at­hygli hversu yf­ir­vegaðar þær voru. En áfallið kom síðar, af öllu afli.

Við þekkj­um þetta flest, hvernig hug­ur­inn vinn­ur úr áföll­um, hvernig hann hjálp­ar okk­ur að kom­ast í gegn­um erfiðar aðstæður. Og við vit­um það líka að það er mik­il­vægt að vera meðvitaður um hvaða áhrif áföll hafa á okk­ur og tak­ast á við þau af auðmýkt fyr­ir líf­inu sjálfu. Það verk­efni hafa þær mæðgur einnig tek­ist á við af æðru­leysi. Vil ég óska þeim góðs geng­is í sínu ferðalagi og þakka þeim fyr­ir að veita okk­ur inn­sýn í verk­efni sín.

Við mót­umst öll af þeim áföll­um sem við verðum fyr­ir á lífs­leiðinni og það á líka við um sam­fé­lög. Viðbrögð rík­is­stjórn­ar­inn­ar við þeirri miklu vá sem heims­far­ald­ur­inn er hafa ann­ars veg­ar miðað að því að standa vörð um líf og heilsu fólks og hins veg­ar að því að tryggja eft­ir fremsta megni lífsaf­komu þeirra sem misst hafa vinn­una. Góð staða þjóðarbús­ins sem byggð hafði verið upp af skyn­semi síðustu árin var notuð til þess að standa vörð um störf og skapa störf með um­fangs­mikl­um fram­kvæmd­um rík­is­ins. Verk­efni næstu ára verður fyrst og fremst að skapa at­vinnu til að vinna aft­ur þau miklu lífs­gæði sem við höf­um notið síðustu ár hér á landi. At­vinn­an er grund­völl­ur lífs­gæða.

Af þeim aðgerðum sem ráðist hef­ur verið í hef­ur hluta­bóta­leiðin að öll­um lík­ind­um verið mik­il­væg­ust ásamt fram­leng­ingu á tekju­tengd­um at­vinnu­leys­is­bót­um. Einnig hef­ur verið lögð mik­il áhersla á að vernda þá hópa sem veik­ast standa í sam­fé­lag­inu með stuðningi við barna­fjöl­skyld­ur með lág­ar tekj­ur, ein­greiðslum til barna­fjöl­skyldna, hækk­un at­vinnu­leys­is­bóta, hækk­un ör­orku­bóta og svo mætti áfram telja. Verk­efnið Nám er tæki­færi er einnig mik­il­væg­ur þátt­ur í því að veita at­vinnu­leit­end­um færi á að mennta sig og standa sterk­ar að vígi á at­vinnu­markaði þegar far­aldr­in­um lýk­ur.

Verk­efn­in hafa verið mörg og brýn og sem bet­ur fer hafa stór um­bóta­mál sem ekki tengj­ast far­aldr­in­um náð fram að ganga á ár­inu 2020. Alþingi samþykkti á vor­mánuðum frum­varp mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra um bylt­ingu á náms­lána­kerf­inu með stofn­un mennta­sjóðs sem trygg­ir ung­um náms­mönn­um betri kjör, stór­auk­inn stuðning við barna­fólk og 30% niður­færslu á höfuðstól lána sé námi lokið inn­an ákveðins tíma. Þetta skref er stórt og jafn­ar enn tæki­færi til náms á Íslandi.

Annað stórt um­bóta­verk­efni var leng­ing fæðing­ar­or­lofs í 12 mánuði. Með því held­ur Fram­sókn áfram bar­áttu sinni fyr­ir aukn­um lífs­gæðum fjöl­skyldna á Íslandi en 20 ár eru liðin frá því stór­merk lög Páls heit­ins Pét­urs­son­ar um fæðing­ar­or­lof voru samþykkt á Alþingi sem tryggðu feðrum sér­stak­an rétt á or­lofi. Þau lög sem fé­lags- og barna­málaráðherra hef­ur unnið að allt kjör­tíma­bilið eru stór­kost­legt um­bóta­mál sem trygg­ir barni sam­vist­ir við báða for­eldra á fyrstu mánuðum lífs­ins og er risa­skref í átt til auk­ins jafn­rétt­is.

Hús­næðismál voru eitt af stóru mál­un­um í bar­áttu Fram­sókn­ar fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2017 og bar sú bar­átta ríku­leg­an ávöxt þegar mál fé­lags- og barna­málaráðherra um hlut­deild­ar­lán varð að lög­um. Það fel­ur í sér magnaðar um­bæt­ur fyr­ir efnam­inna fólk og fel­ur í sér að fleiri geta keypt sér þak yfir höfuðið og kom­ist af óhag­stæðum leigu­markaði í eigið hús­næði.

Í sam­göng­un­um varð eitt af stefnu­mál­um Fram­sókn­ar að veru­leika þegar Loft­brú­in var tek­in í gagnið í sept­em­ber síðastliðnum. Í Loft­brú felst að íbú­ar fjarri höfuðborga­svæðinu fá 40% af­slátt af ákveðnum fjölda flug­ferða á ári. Loft­brú­in er stórt skref í því að jafna aðstöðumun byggðanna og ger­ir fólki til dæm­is auðveld­ara að sækja sér lækn­isþjón­ustu og afþrey­ingu í höfuðborg­inni. Stór­sókn er haf­in í upp­bygg­ingu á vega­kerf­inu, höfn­um og flug­völl­um um allt land og má þar sér­stak­lega nefna nýja flug­stöð á Ak­ur­eyri sem veit­ir tæki­færi til að opna nýja gátt í flugi til lands­ins.

Ísland er gott og sterkt sam­fé­lag. Það sýndi sig á þessu um­brota­ári. Samstaða mik­ils meiri­hluta al­menn­ings í sótt­vörn­um og um­hyggja fyr­ir þeim hóp­um sem veik­ast­ir eru fyr­ir sýndi það svo ekki verður um villst. Íslend­ing­ar nýttu líka þá upp­styttu í far­aldr­in­um sem ríkti í sum­ar til að ferðast um fal­lega landið sitt og upp­lifa nátt­úr­una og kynn­ast þeirri mögnuðu upp­bygg­ingu sem orðið hef­ur í ferðaþjón­ustu um landið allt. Þau kynni fólks af land­inu sínu og lönd­um sín­um hring­inn um landið hafa aukið skiln­ing og virðingu okk­ar hvers fyr­ir öðru. Sú reynsla verður mik­il­væg­ur hluti af viðspyrn­unni þegar hún hefst af full­um krafti.

Þróun bólu­efn­is gegn kór­ónu­veirunni hef­ur sýnt hvað þekk­ing vís­ind­anna og sam­taka­mátt­ur­inn get­ur skilað mann­kyn­inu í bar­áttu við vá­gesti. Af hraðri þróun þess get­um við lært margt, ekki síst hvað sam­vinn­an get­ur skilað okk­ur langt. Það hug­ar­far sem ein­kenndi viðbrögð heims­ins á að vera okk­ur fyr­ir­mynd þegar kem­ur að bar­áttu okk­ar gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Hnign­un po­púlí­skra afla um all­an heim vek­ur með manni von um að lönd heims­ins geti sam­ein­ast um aðgerðir til að bjarga heim­in­um. Það verður ekki gert með trú­ar­leg­um refsi­vendi held­ur með því að nýta afl vís­ind­anna og kraft sam­taka­mátt­ar­ins til að finna leiðir til að viðhalda lífs­gæðum án þess að ganga á nátt­úr­una. Eyðing­ar­mátt­ur nátt­úr­unn­ar, hvort sem er í líki veiru eða nátt­úru­ham­fara, vek­ur líka með okk­ur sköp­un­ar­kraft til að mæta þeim verk­efn­um sem fram und­an eru í lofts­lags­mál­um. Sá kraft­ur sem ungt fólk, öðrum frem­ur, hef­ur sýnt í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um er okk­ur öll­um inn­blást­ur.

Með vor­inu mun aft­ur fær­ast líf í ferðaþjón­ustu á Íslandi. Nátt­úr­an og menn­ing­in verða áfram mikið aðdrátt­ar­afl fyr­ir er­lenda gesti og þeir innviðir sem byggðir hafa verið upp bíða þess að kom­ast aft­ur í fulla notk­un. Síðast en ekki síst bíður fólk með mikla þekk­ingu og orku eft­ir því að nýta hæfi­leika sína í ferðaþjón­ust­unni. At­vinnu­grein­ar eins og fisk­eldi, kvik­mynda­gerð og skap­andi grein­ar hafa gríðarleg tæki­færi til að stækka og byggja und­ir lífs­gæði framtíðar­inn­ar í góðu sam­spili við sjáv­ar­út­veg og land­búnað. Framtíðin er björt ef okk­ur tekst að nýta þau tæki­færi sem okk­ur bjóðast.

Já, viðspyrn­an er hand­an við hornið, nú þegar sól hækk­ar á lofti og bólu­setn­ing­ar eru hafn­ar. Ríkið hef­ur ráðist í viðamikl­ar fram­kvæmd­ir, ekki síst á sviði sam­gangna og ný­sköp­un­ar. Sam­göng­ur eru lífæð lands­ins, stór þátt­ur í lífs­gæðum fólks og styrk­ir byggðir og sam­fé­lög. Ný­sköp­un á öll­um sviðum, hvort sem það eru sta­f­ræn­ar lausn­ir í stjórn­sýslu eða stuðning­ur við frjóa sprota í at­vinnu­líf­inu.

Næstu mánuði og ár verður það verk­efni stjórn­mál­anna að vinna úr þeim áföll­um sem gengu yfir okk­ur árið 2020. Þar er efst á blaði að skapa at­vinnu til að standa und­ir frek­ari lífs­gæðasókn fyr­ir Ísland. Líkt og áfall Önnu Sig­ríðar og dótt­ur henn­ar þá mun árið 2020 vera verk­efni sem við vinn­um úr sam­an eft­ir því sem mánuðirn­ir og árin líða. Höggið sem rík­is­sjóður hef­ur tekið á sig vegna far­ald­urs­ins má ekki leiða til þess að sam­heldni þjóðar­inn­ar gliðni og veik­ari hóp­ar sam­fé­lag­ins verði skild­ir eft­ir þegar viðspyrn­an hefst af full­um krafti. Hug­sjón Fram­sókn­ar um gott sam­fé­lag þar sem all­ir hafa tæki­færi til að blómstra í þeim stóru verk­efn­um sem eru fram und­an mun skipta lyk­il­máli. Við mun­um leggja all­an okk­ar kraft og alla okk­ar reynslu í að skapa nýja fram­sókn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag, nýja fram­sókn fyr­ir fjöl­skyld­ur og fyr­ir­tæki, nýja fram­sókn fyr­ir landið allt.

Ég óska öll­um lands­mönn­um gleðilegs nýs árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2020.