Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa og hefur hann mælt fyrir henni á Alþingi..
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra að koma á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.“
Í flutningsræðu sinni fór Ágúst Bjarni yfir að einhverfa væri röskun í taugaþroska sem kæmi jafnan fram snemma í barnæsku. Hún væri yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi. Vegna þess með hversu ólíkum hætti einhverfa komi fram allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg væri oft talað um einhverfuróf.
Markmiðið með þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa yrði að draga saman á einn stað alla þá þekkingu sem til sé um einhverfu og að börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga.
Hlutverkið væri að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.
„Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda,“ sagði Ágúst Bjarni.
Við greiningu einstaklings er mikilvægt að einstaklingnum og fjölskyldu hans sé boðið upp á fræðslu um einhverfurófið og hvaða aðferðir gætu hentað.
„Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð,“ sagði Ágúst Bjarni.
Nokkrar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra.
Segir Ágúst Bjarni nauðsynlegt að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasáttmálum og að þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa geti verið lið í þeirri vinnu.
„Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.
Það er einlæg von mín að málið fái góða umfjöllun og fari nú til velferðarnefndar til frekari umfjöllunar og verði að lokum samþykkt hér á Alþingi,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Um leiðarval að Fjarðarheiðargöngum
13/03/2023
Um leiðarval að FjarðarheiðargöngumÁ fundi sveitarstjórnar Múlaþings þann 14. september síðastliðinn var ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin staðfest. Var þar með samþykkt að vegur að Fjarðarheiðargöngum liggi um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur þessarar ákvörðunar eru meðal annars að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn í fyllingu tímans. Jafnframt er lögð áhersla á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.
Aðdragandi þessarar ákvörðunar er drjúgur, eins og kemur fram í umhverfismatsskýrslu framkvæmdanna. Árið 2020 lagði Vegagerðin til við starfshóp á vegum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að jarðgangamunninn yrði við Dalhús. Rök fyrir þeirri staðsetningu eru meðal annars að þannig næst meiri ávinningur fyrir samfélagið á Austurlandi í heild auk þess að með þessari staðsetningu næst jafnframt stytting á jarðgöngunum.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs féllst á þessa tillögu Vegagerðarinnar en þar með var ljóst að gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs þyrfti að breyta enda er í gildandi aðalskipulagi gert ráð fyrir að gangnamunninn sé við Steinholt. Vegagerðin vann fyrst tillögu að matsáætlun fyrir umhverfismat og var hún kynnt í október 2020. Í framhaldi var gerð umhverfismatsskýrsla sem var kynnt með tillögu Vegagerðarinnar um aðalvalkost í apríl síðastliðnum. Þessi gögn má kynna sér á vefsjá Vegagerðarinnar um framkvæmdina https://fjardarheidargong.netlify.app/.
Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þarf Vegagerðin að færa rök fyrir vali sínu á aðalvalkosti í umhverfismatsskýrslu. Með hliðsjón af þeim þáttum sem þar voru til skoðunar lagði Vegagerðin til að farin verði svonefnd suðurleið Héraðsmegin og að einnig verði ný veglína Seyðisfjarðarmegin.
Í umhverfismatsskýrslu koma suðurleið og miðleið betur út en norðurleið hvað varðar umferðaröryggi, kostnað, þjóðhagslegan ávinning og áhrif á náttúrufar, landnotkun, fornleifar og samfélagsleg áhrif. Vegagerðin telur því mestan ávinningin koma fram með því að fara suðurleið.
Matið sýnir einnig að allir valkostir fela í sér rask innan verndarsvæða og á vistgerðum, þ.e. birki og votlendi, sem njóta verndar skv. 61. gr. Náttúruverndarlaga. Því er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum sem felast í uppgræðslu og endurheimt vistgerða.
Sú aðalskipulagsbreyting sem nú er unnið að á sér því umtalsverðan aðdraganda. Vinnslutillaga fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi var kynnt íbúum 14. júlí sl. og var frestur til að senda inn athugasemdir til 25. ágúst.
Það er mikilvægt að fá fram afstöðu íbúa og annarra hagsmunaaðila til þeirra valkosta sem fjallað er um í umhverfissmatsskýrslu framkvæmdanna (suðurleið, miðleið og norðurleið) og var það gert með opnum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar voru til viðtals og sátu fyrir svörum um framhaldið. Fáar athugasemdir komu frá íbúum á þessum kynningartíma.
Í kjölfar þessa ferlis tók sveitarstjórn ákvörðun um leiðarvalið og er nú unnið að gerð endanlegrar tillögu til breytinga á aðalskipulaginu í samræmi við þá ákvörðun. Sú tillaga kemur síðan til sveitarstjórnar til afgreiðslu þegar hún verður orðin fullunnin síðar í vetur.
Það er ljóst að sveitarfélagið þarf síðan einnig að horfa á þessa skipulagsbreytingu í stærra samhengi. Þar má vísa til þess við horfum til þess hvernig ný veglína getur átt samleið með stækkun flugvallar sem og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Enda berum við þá von í brjósti að skammt sé í þær framkvæmdir.
Við teljum að með hinni nýju suðurleið myndist tækifæri til að færa Lagarfljótsbrúnna innar og best væri að ná þjóðveginum inn fyrir þéttbýlið án þess að aftengja það um of. Horfandi til möguleika á lengingu flugbrautarinnar, það er til suðurs eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi, teljum við að ná megi því markmiði að koma þungaumferð út fyrir þéttbýlin okkar hér við fljótið án þess að missa snertiflöt við bæinn, þannig að vegurinn liggi einkum að og um svæði fyrir verslun, þjónustu og iðnað.
Það má fastlega gera ráð fyrir því að þegar Seyðfirðingar og Fjarðarbúar koma í Egilsstaði til að sinna sínum erindum munu þeir áfram fara um miðleið. Umferð um hana mun hinsvegar minnka verulega því sú umferð sem ekki á beint erindi í Egilsstaði mun fara um suðurleið.
Suðurleiðin skapar möguleika á beinni tengingu af þjóðvegi inn á iðnaðarsvæðið á Miðási sem er gríðarlega mikilvægt og grunnforsenda þess að við náum því markmiði að þungaflutningar verði sem mest utan bæjarmarkanna. Til að ýta enn frekar undir þetta markmið má einnig beita ýmsum takmarkandi umferðarstýringum með þetta fyrir augum þó að tekið verið tillit til innanbæjarflutninga. Sú útfærsla bíður betri tíma og mögulegt er að til þess þurfi ekki að koma rætist sú ósk okkar að þungaflutningar leiti í akstur um beina og breiða þjóðvegi frekar en að fara um miðbæinn.
Sú gagnrýni hefur komið fram að betra hefði verið að hugsa til framtíðar hvað varðar stækkun byggðar áður en veglína yrði ákveðin. Í því sambandi er rétt að benda á að í gildandi aðalskipulagi er töluvert rými til stækkunar þéttbýlis sem ekki er búið að fullnýta og skerðist á engan hátt við þetta leiðarval. Það verður síðan eitt af verkefnunum við gerð nýs aðalskipulags að ákveða næstu skref í stækkun þéttbýlisins. Fjölmargir góðir valkostir standa til boða hvað það varðar og gildir þá einu hvaða leið hefði verið valin fyrir þessar framkvæmdir.
Við erum þess fullviss að þessi ákvörðun sveitarstjórnar að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar verði okkur öllum til heilla og að við munum innan skamms sjá vinnu við Fjarðarheiðargöng hefjast.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti svetiarstjórnar og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings.
Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2023.
12/03/2023
Efling verknámsLengi hefur verið vöntun á fleiri einstaklingum með iðnmenntun hér á landi og, í kjölfar aðgerða að hálfu ríkisstjórnarinnar, hefur þeim fjölgað verulega sem hafa áhuga á að stunda iðnnám. Talið er að nemendum í starfsnámi fjölgi um 18% næstu árin. Þetta er vissulega ánægjuleg þróun. Hins vegar er nauðsynlegt að við henni verði brugðist hvað varðar námsframboð og fullnægjandi innviði fyrir hverja námsleið.
Meira og betra verknám
Í síðustu viku opinberaði mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, áform innan ráðuneytisins um að efla verknám enn frekar og bregðast við ofangreindri þróun. Ein meginástæða fyrir höfnun í verknám hefur verið skortur á aðstöðu til að taka við. Á síðasta ári sáum við hundruðum einstaklinga synjað um aðgengi að iðnnámi vegna þessa, einmitt þegar vöntunin er mikil. Því er ljóst að byggja þurfi nauðsynlega innviði og stækka ýmsa skóla svo að hægt verði að bregðast við sívaxandi aðsókn í verknámsleiðir. Ljóst er að auka þurfi námsaðstöðuna um allt að 19.500 fermetra svo að hægt sé að mæta þeirri fjölgun sem greiningar fyrir næstu ár sýna fram á.
Vegferðin er hafin
Nú þegar hefur ríkisstjórnin stækkað húsnæði til verknáms í samræmi við markmið ríkisstjórnarsáttmálans. Nýr og stærri Tækniskóli er langt kominn í Hafnarfirði, þar sem aðstaðan verður efld til muna og hægt er að taka á móti fleiri nemendum. Einnig hefur verið gengið frá samningi um stækkun starfsnámsaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Sú stækkun nemur alls 2.400 fermetrum. Auk þessa hafa skref verið tekin í átt að fjölgun námsleiða í Borgarholtsskóla, þá sérstaklega í pípulögnum.
Skref fyrir skref
Iðngreinar hafa lengi verið vanmetnar hér á landi þar sem langflestir velja hina hefðbundnu námsframvindu, þ.e. bóknám að lokinni framhaldsskólagráðu. Það er ekki nema á síðustu árum sem ungt fólk hefur áttað sig á þeim fjölmörgu tækifærum sem felast í iðnnámi. Við sjáum það núna í stórfelldri aukningu aðsóknar í slíkt nám. Því er nauðsynlegt að brugðist verði við og allir hafi tækifæri til að sækja iðnnám rétt eins og bóknám. Mikilvægasti fasinn er að tryggja nauðsynlega innviði.
Svo stórt verkefni þarfnast tíma og verður tekið í skrefum. Um er að ræða talsverða uppbyggingu, sem mun skila sér margfalt til baka að lokum. Þá sérstaklega fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins, sem hafa ekki horft upp á mikinn fjölda námstækifæra í iðnnámi nema með því skilyrði að þeir flytji suður. Verkefnið er þarft og það er mikið fagnaðarefni að sjá ríkisstjórnina, og þá sérstaklega mennta- og barnamálaráðherra, bregðast við með þessum hætti.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtists fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2023.
11/03/2023
Spara og spara, oj baraSeðlabankastjóri tilkynnti að finna þyrfti leiðir sem hafa það að markmiði að aðstoða landsmenn við að auka sparnað sinn. Hefur hann því lagt til að afnumdar verði reglur um verðtryggingu inn- og útlána. Þetta þýðir að heimilt verður að verðtryggja innlán án tímatakmarkana frá og með fyrsta júní næstkomandi. Fram hefur komið að raunávöxtun á innlánsreikningum í fyrra var neikvæð í nánast öllum tilfellum. Fé á verðtryggðum reikningum hélt í við verðbólgu en þegar búið er að taka tillit til fjármagnstekjuskatts er raunávöxtun þeirra líka neikvæð.
Þessar reglur eru barn síns tíma og í raun er það ekki eðlilegt að Seðlabankinn hlutist til um hvernig innlán séu í boði á Íslandi. Afnám reglnanna er því jákvætt og tímabær aðgerð. Með breytingu á reglum um verðtryggingu er verið að búa til hvata til aukins sparnaðar og fjölga möguleikum á sparnaði. Markmiðið er því eftir sem áður að auka sparnað og draga úr þenslu í efnahagskerfinu okkar.
Innflutningur og viðskiptahalli
Það er halli á vöruviðskiptum, sem skýrist af öflugri innlendri eftirspurn. Það hefur m.a. keyrt áfram verðbólguna hér á landi og ljóst er að framhald verði á þeirri þróun. Verðbólgan byrjaði að aukast af miklum krafti fyrir rúmu ári síðan og er nú yfir 10%. Við flytjum inn meira en við flytjum út og mikil eftirspurn er eftir bæði vörum og vinnuafli, sem kyndir undir verðbólguna og hefur myndað mikla spennu á vinnumarkaði undanfarna mánuði.
Verðbólga er merki um mikla innlenda eftirspurn og verðhækkanir á innfluttum vörum koma bersýnilega fram í viðskiptahalla. Of mikil innlend eftirspurn myndar innflutningsverðbólgu hér á landi, sem hefur áhrif á verðlag, vísitölu og þar með verðbólguna. Ljóst er að núverandi verðbólga er að mestu leyti innflutt.
Sameina krafta gegn verðbólgu
Í kringum árið 1990 var gerð þjóðarsátt sem tók til allra aðila vinnumarkaðarins og hafði hún það að leiðarljósi að allir settu sér raunhæf markmið um kaupmátt, eyðslu og skynsemi samfélagsins. Ríkisstjórnin þarf að stíga föst skref og byggja þá brú sem til þarf svo eins konar þjóðarsátt náist. Við þurfum að taka saman höndum, spara meira og eyða minna, en þó á þann hátt að tannhjól samfélagsins stöðvist ekki á meðan. Til þess þurfa almenningur, vinnumarkaðurinn, ríkið og sveitarfélögin að ganga öll saman í takt, svo árangur náist í þessari baráttu.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.
11/03/2023
Vinna að jafnréttiAlþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrr í þessari viku. Þessi dagur gefur ávallt tilefni til að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum.
Það er sláandi að þessa dagana berast þau tíðindi frá 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna.
Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við þó enn langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni. Það verður aldrei þannig að við getum hallað okkur aftur og sagt að öllum markmiðum hafi verið náð, því þá er hætta á að áunnin réttindi tapist og framþróun stöðvist. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.
Áskoranirnar hér á landi eru margar, launamunur og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja þarf eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem nú er í gangi, eftir að við höfum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi.
Þessi misserin sjáum við bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til tafarlausra og samræmdra aðgerða til þess að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna og um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.
Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Stóra óskin er að konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.
Heilbrigðismál í Suðurnesjabæ
10/03/2023
Heilbrigðismál í SuðurnesjabæÍ Suðurnesjabæ eru byggðakjarnarnir Sandgerði og Garður. Á árum áður voru heilsugæslustöðvar á báðum stöðum en þeim var lokað. Bæjaryfirvöld hafa unnið að málinu í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og einnig hafa átt sér stað samtöl við Heilbrigðisráðherra og þingmenn kjördæmisins.
Eftir sveitarstjórnarkosningar í vor hefur verið settur aukinn þrýstingur á ríkið að bæta úr þessari stöðu í sveitarfélaginu. En í málefnasamningi meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks seigir að áfram verði unnið að því að tryggja íbúum sveitarfélagsins heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.
Suðurnesjabær er tæplega 4.000 manna sveitarfélag sem er næst stærsta sveitarfélag á suðurnesjum á jafnframt það eina á svæðinusem hefur hvorki heilbrigðisþjónustu né hjúkrunarheimili. Jóhann Friðrik Friðriksson ásamt öðrum þingmönnum í Suðurkjördæmi lögðu fram þingsályktunartillögu þann 08.11.2022 um Heilsugæslusel í Suðurnesjabæ.
Sveitarfélagið hefur nú þegar boðið fram hentugt húsnæði undir starfsemina sem bæði er vel staðsett, með nægum bílastæðum og fyrsta flokks aðgengi á jarðhæð. Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa átt gott samstarf við HSS enda verkefnið til þess fallið að auka þjónustu við íbúa og um leið draga úr álagi á heilsugæslu HSS í Reykjanesbæ. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er staðsett í Suðurnesjabæ, aukið álag má einkum rekja til gríðarlegrar fólksfjölgunar á Suðurnesjum auk álags vegna komu ferðamanna og flóttamanna sem njóta þjónustu ríkisins á svæðinu.
Samkvæmt viðmiðum um heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að heilsugæslu þjónustu á bilinu 8.000–12.000 manns. Heilsugæslusel sem sinna takmarkaðri þjónustu má finna víða um land og er starfseminni stýrt af heilbrigðisstofnunum á viðkomandi þjónustusvæði. Bæjaryfirvöld og íbúar í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að þjónustan verði endurvakin til að tryggja grunnþjónustu í vaxandi samfélagi sem er nú orðið næst stærsta sveitarfélag Suðurnesja og hafa stjórnendur HSS tekið undir þau sjónarmið.
Eins og málið blasir nú við eru þrír byggðarkjarnar á landinu sem hafa enga heilbrigðisþjónustu þeir eru Garður, Sandgerði og Hellissandur, tveir af þessum byggðarkjörnum eru staðsettir í Suðurnesjabæ, Þetta er staða sem íbúar Suðurnesjabæjar geta ekki sætt sig við.
Eftir þau uppbyggilegu samtöl sem við höfum átt við Heilbrigðisráðherra og þingmenn í kjördæminu er það staðfest trú mín að þetta mál verði klárað, um er að ræða stórt réttlætismál fyrir hag og velferð íbúa Suðurnesjabæjar.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2023.
Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri
09/03/2023
Húsnæðismál eldri borgara á AkureyriAð tryggja rétt okkar allra til farsællar öldrunar er stórt og mikilvægt verkefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall eldra fólks fer hækkandi hér á landi rétt eins og annarsstaðar í heiminum. Akureyrarbær hefur sett sér aðgerðaáætlun í málefnum aldraðra sem unnið er eftir og tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf. Veigamiklir póstar eru hins vegar eftir í þeirri vegferð bæjarins að verða aldursvænt samfélag þar sem er gott að eldast. Húsnæðis- og skipulagsmál eru þar á meðal.
Húsnæðisþarfir, skipulag og farsæl öldrun
Aldursvænt bæjarfélag tryggir öllum hópum húsnæði á viðráðanlegu verði, sem er vel hannað og öruggt. Í aldursvænum hverfum er gott að rækta og efla andlega heilsu jafnt á við þá líkamlegu og félagslegu. Þar er því stutt í fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf og umhverfið er aðlaðandi og aðgengilegt. Skipulagið tekur mið af þörfum og ferðavenjum eldri borgara og dregur þannig úr félagslegri einangrun. Allt eru þetta undirstöður að farsælli öldrun.
Það á að vera sameiginlegt markmið okkar að tryggja fjölþætta búsetuvalkosti sem henta þörfum aldraðra og gera fólki kleift að lifa sjálfbjarga og sjálfstæðu lífi lengur. Árið 2038 verður hlutfall þeirra sem eru eldri en 65 ára yfir 20% mannfjöldans og árið 2064 yfir 25%. Nú er það 14%. Gott er að hafa í huga að megnið af því húsnæði sem verður í boði árið 2038 er nú þegar búið að byggja þetta herrans ár 2023, og drjúgur hluti þess er eldra húsnæði sem fyrir margar sakir hentar illa þeim markmiðum að fólk geti búið sem lengst á eigin vegum. Þessu húsnæði er dýrt að breyta og þess vegna verðum við að horfa til uppbyggingar á nýjum hverfum og tryggja að þar séum við að skapa húsnæðislausnir sem eru sveigjanlegri og taka mið af breytilegum þörfum einstaklinga.
Hvar er svigrúm fyrir aldursvæn hverfi þegar minnka á við sig?
Framundan er vinna við breytingu á aðalskipulagi bæjarins og viljum við í Framsókn horfa til heildstæðrar uppbyggingar á húsnæði og þjónustu fyrir eldri borgara. Við þurfum að leyfa okkur að hugsa stórt og til lengri framtíðar ef við ætlum okkur að ná öllum markmiðum okkar í málefnum eldri borgara. Á bæjarstjórnarfundi 4. október síðastliðinn lögðum við til við bæjarstjórn að sveitarfélagið myndi hefja samtal og samráð við öldungaráð og Félag eldri borgara á Akureyri um hvernig gera megi Nausta- og Hagahverfi að aldursvænni hverfum með tilliti til þjónustu og samkomustaða. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða. Hvers vegna ekki þá að taka skrefið til fulls og skipuleggja sérstakt svæði fyrir eldri borgara í Hagahverfi? Nógu stórt í sniðum þannig að þar sé bæði grundvöllur og aðstaða fyrir margvíslega þjónustu, bæði sérsniðna fyrir eldri borgara en líka þjónustu sem gæti nýst öðrum íbúum í hverfunum.
Langlífi og aðrar samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og þjónustu við eldra fólk. Við þurfum meira en bara aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara á Akureyri – við þurfum framtíðarsýn um hvernig aldursvæn Akureyrarborg lítur út.
Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.
Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. mars 2023.
Nýr kafli í flugsögu Íslands
08/03/2023
Nýr kafli í flugsögu ÍslandsMikill árangur hefur náðst í því að styðja við uppbyggingu beins millilandaflugs á landsbyggðinni. Líkt og greint var frá í fréttum nýverið verður metfjöldi erlendra áfangastaða í boði á landsbyggðinni í ár en hægt verður að fljúga beint frá Akureyri til Kaupmannahafnar, Düsseldorf, Tenerife, Alicante, Zürich og Frankfurt – sem einnig verður í boði frá Egilsstöðum.
Þetta er ánægjuleg þróun sem skiptir máli fyrir þjóðarbúið allt og staðfesting á því að stefna stjórnvalda sé að virka. Markvisst hefur verið unnið að því að styðja við uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni og opna þannig fleiri gáttir inn í landið. Flugþróunarsjóður var settur á laggirnar til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Þá tók ég ákvörðun um að veita sérstaklega fjármunum til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Samhliða þessu hafa stjórnvöld fjárfest í uppbyggingu fluginnviða á svæðunum, til að mynda stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, sem gerir flugvöllinn betur í stakk búinn til þess að þjónusta millilandaflug. Þá var einnig ráðist í endurbætur á Egilsstaðaflugvelli en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um að stækka flughlað og leggja akbrautir.
Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að opna fleiri gáttir inn í landið og nýta þau tækifæri sem því fylgja. Flugsaga Íslands er farsæl og sá árangur sem náðst hefur í að byggja upp greiðar og tíðar flugsamgöngur til og frá landinu hefur aukið samkeppnishæfni þess verulega. Það er til mikils að vinna að styðja við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni. Beint millilandaflug virkar sem vítamínsprauta fyrir atvinnuþróun á Norður- og Austurlandi og eykur verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu á svæðunum; lengja ferðatímabil erlendra ferðamanna og minnka árstíðasveiflur, stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og skapa tækifæri til þess að nýta betur fjárfestingar í innviðum og afþreyingu í ferðaþjónustu en nú þekkist. Aukinheldur eykur þetta lífsgæði íbúanna á svæðunum sem geta nýtt sér þessar greiðari samgöngur – en hundruð tengiflugsmöguleika eru í boði frá þeim áfangastöðum sem flogið verður til.
Þessi jákvæða þróun skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt og tryggja verður að hún verði viðvarandi. Með það fyrir augum hafa stjórnvöld ákveðið að festa Flugþróunarsjóð í sessi til þess að skapa hvata til áframhaldandi leiðarþróunar til Akureyrar og Egilsstaða. Ég bind vonir við að þessi nýi og spennandi kafli í flugsögu Íslands verði landinu gæfuríkur og skapi ný tækifæri fyrir land og þjóð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2023.
08/03/2023
Ísland er að flytja inn verðbólgu í stórum stílHafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór yfir óhagstæðan viðskiptajöfnuð Íslendinga nú í febrúar í störfum þingsins. Fluttar voru út vörur frá Íslandi fyrir 73,8 milljarða í febrúar 2023 en innflutningurinn nam 99,7 milljörðum, samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni.
„Vöruviðskipti okkar voru okkur því óhagstæð um 26,9 milljarða en til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð í febrúar 2022, á gengi hvors árs fyrir sig. Ljóst er að innflutningur okkar er okkur mjög dýr og munurinn milli ára er gríðarlegur. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og við vitum,“ sagði Hafdís Hrönn.
Verðmæti vöruútflutnings jókst um 24,9% á 12 mánaða tímabili.
- Iðnaðarvörur voru 57% af öllum útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 35%
- Sjávarafurðir eru 35% og jókst verðmæti þeirra um 16,3%
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili.
- Verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 15%
- Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 13%
- Verðmæti eldsneytis jókst um 37,9%
„Viðskiptajöfnuðurinn fyrir síðustu 12 mánuði er okkur verulega óhagstæður. Í þessum ræðustól höfum við verið að ræða um stöðu efnahagsmálanna og verðbólgu í landinu. Af þessu er kristalskýrt að við erum að flytja inn verðbólgu í stórum stíl. Þetta er ekki eina ástæðan fyrir þeirri verðbólgu sem við búum við í dag en þetta hefur svo sannarlega áhrif og við þurfum að horfast í augu við það,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.
Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Fluttar voru út vörur frá Íslandi fyrir 73,8 milljarða í febrúar 2023 en innflutningurinn nam 99,7 milljörðum, samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni. Vöruviðskipti okkar voru okkur því óhagstæð um 26,9 milljarða en til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð í febrúar 2022, á gengi hvors árs fyrir sig. Ljóst er að innflutningur okkar er okkur mjög dýr og munurinn milli ára er gríðarlegur. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og við vitum.
Verðmæti vöruútflutnings jókst um 24,9% á 12 mánaða tímabili. Iðnaðarvörur voru 57% af öllum útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 35%. Sjávarafurðir eru 35% og jókst verðmæti þeirra um 16,3% miðað við 12 mánaða tímabil. Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili og verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 15%. Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 13% og verðmæti eldsneytis um 37,9%, samanborið við árið á undan. Verðmæti vöruinnflutnings á 12 mánaða tímabili jókst um 30,9% á gengi hvors árs fyrir sig og aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum.
Virðulegi forseti. Viðskiptajöfnuðurinn fyrir síðustu 12 mánuði er okkur verulega óhagstæður. Í þessum ræðustól höfum við verið að ræða um stöðu efnahagsmálanna og verðbólgu í landinu. Af þessu er kristalskýrt að við erum að flytja inn verðbólgu í stórum stíl. Þetta er ekki eina ástæðan fyrir þeirri verðbólgu sem við búum við í dag en þetta hefur svo sannarlega áhrif og við þurfum að horfast í augu við það.“
08/03/2023
„Stofnun Niceair ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í“Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðunum. Stjórnvöld hafa markvisst unnið að því að auka samkeppnishæfni landsins og fjölga erlendum ferðalöngum. Flugþróunarsjóður er dæmi beinar aðgerðir stjórnvalda, en honum er ætlað að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða.
„Fjármunum hefur sérstaklega verið varið til markaðsstofa svæðisins til að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og aukinn slagkraftur hefur verið settur í markaðssetningu á landshlutunum sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Fjárfest hefur verið í innviðum á svæðinu og frumvarp hefur verið lagt fram um varaflugvallargjald, sem ætlað er að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla sem og þeirra þjónustuvalla sem eru víðs vegar um land,“ sagði Ingibjörg.
„Greiðar samgöngur við útlönd hafa mikilvæg áhrif á byggðir landsins og má segja að stofnun Niceair hafi verið ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í; byggðaaðgerð sem hefur gífurleg áhrif á samfélagið í heild, ánægju íbúa og lífsgæði þeirra sem aukast til muna. Það er ánægjulegt að sjá raunverulegan árangur af aðgerðum stjórnvalda en þar eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðaþjónustu: Hana skal efla um allt land,“ sagði Ingibjörg.
„Í ár verður metfjöldi áfangastaða í boði frá landsbyggðinni. Nýjar flugtengingar skipta miklu máli fyrir atvinnuþróun svæðisins og auka verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu þar sem við sjáum að hún hefur aukist. Þeim ber að þakka sem hafa í mörg ár barist fyrir auknu millilandaflugi um þessa flugvelli; sveitarfélögum, markaðsstofum, landshlutasamtökum, auk frumkvöðla á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að barátta þeirra hefur skilað sér,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Greiðar flugsamgöngur við útlönd eru mikilvægar. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið markviss skref sem stuðla að uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni, skref sem hafa skilað góðum árangri. Árangurinn hefur gagnast alþjóðlegum ferðalöngum og ekki síður almenningi og fyrirtækjum hérlendis og aukið samkeppnishæfni landsins. Dæmi um aðgerðir stjórnvalda eru t.d. flugþróunarsjóður, sem settur var á laggirnar til að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Fjármunum hefur sérstaklega verið varið til markaðsstofa svæðisins til að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og aukinn slagkraftur hefur verið settur í markaðssetningu á landshlutunum sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Fjárfest hefur verið í innviðum á svæðinu og frumvarp hefur verið lagt fram um varaflugvallargjald, sem ætlað er að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla sem og þeirra þjónustuvalla sem eru víðs vegar um land.
Greiðar samgöngur við útlönd hafa mikilvæg áhrif á byggðir landsins og má segja að stofnun Niceair hafi verið ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í; byggðaaðgerð sem hefur gífurleg áhrif á samfélagið í heild, ánægju íbúa og lífsgæði þeirra sem aukast til muna. Það er ánægjulegt að sjá raunverulegan árangur af aðgerðum stjórnvalda en þar eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðaþjónustu: Hana skal efla um allt land.
Í ár verður metfjöldi áfangastaða í boði frá landsbyggðinni. Nýjar flugtengingar skipta miklu máli fyrir atvinnuþróun svæðisins og auka verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu þar sem við sjáum að hún hefur aukist. Þeim ber að þakka sem hafa í mörg ár barist fyrir auknu millilandaflugi um þessa flugvelli; sveitarfélögum, markaðsstofum, landshlutasamtökum, auk frumkvöðla á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að barátta þeirra hefur skilað sér.“