Categories
Greinar

Vinna, vöxtur og velferð

Deila grein

01/01/2022

Vinna, vöxtur og velferð

Ára­mót, þessi ímynduðu þátta­skil í lífi okk­ar, eru sér­stak­ur tími. Í þeim renn­ur sam­an í eitt, nán­ast áþreif­an­legt augna­blik, minn­ing­ar okk­ar úr fortíðinni og vænt­ing­ar okk­ar um framtíðina. Það er hollt að staldra við á þess­um skurðpunkti fortíðar og framtíðar og líta yfir sviðið. Það er margt í sam­fé­lagi okk­ar sem er gott eins og sést þegar helstu mæli­kv­arðar eru skoðaðir. Það þýðir þó ekki að hér sé allt full­komið. Alltaf er rými til að bæta þá um­gjörð sem við höf­um skapað um sam­fé­lag okk­ar.

Þegar maður er orðinn marg­fald­ur afi þá hefst nýtt tíma­bil í lífi manns. Minn­ing­ar frá fyrstu árum barn­anna verða ljós­lif­andi og þá ekki síður minn­ing­ar úr eig­in æsku. Í kring­um börn er æv­in­týra­heim­ur sem er full­ur af lit­rík­um per­són­um. Ein þeirra er Emil í Katt­holti, strák­ur­inn sem var svo óþægur að sveit­ung­arn­ir söfnuðu pen­ing­um til þess að hægt væri að senda hann til Am­er­íku. Því var auðvitað hafnað og átti fyr­ir Emil að liggja að verða odd­viti. Astrid Lind­gren hélt með börn­un­um í sög­um sín­um og opnaði leið inn í heim þeirra og það á tím­um sem ekki var á öll­um heim­il­um litið á börn sem mann­eskj­ur.

Vel­sæld barna

Á síðustu árum höf­um við lagt mikla áherslu á vel­ferð barna eins og sér glöggt merki í nýj­um lög­um um vel­sæld barna sem samþykkt voru und­ir lok síðasta kjör­tíma­bils. Rann­sókn­ir sýna að fyrstu árin eru gríðarlega mik­il­væg og hafa mót­andi áhrif á æv­ina alla. Áhersla Fram­sókn­ar hef­ur lengi verið á vel­ferð barna. Hluti af sögu Fram­sókn­ar er að koma á fæðing­ar­or­lofi fyr­ir feður sem er ekki aðeins mik­il­vægt fyr­ir jafn­rétti kynj­anna held­ur stuðlar að nán­ara og betra sam­bandi barna við feður sína. Leng­ing fæðing­ar­or­lofs í 12 mánuði sem er eitt af verk­um síðustu rík­is­stjórn­ar er einnig mik­il­vægt skref í að bæta enn aðbúnað barna.

Barnið er hjartað í kerf­inu

Þær breyt­ing­ar, sem lög­in um vel­sæld barna og sú samþætt­ing sem unnið var að í tíð Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar sem fé­lags- og barna­málaráðherra, fela í sér hef­ur í för með sér að vegg­ir og þrösk­uld­ar milli ólíkra kerfa voru brotn­ir til. Það er orðið al­gjör­lega skýrt að barnið er hjartað í kerf­inu og að hags­mun­ir þess séu alltaf í önd­vegi. Þær lýs­ing­ar sem heyrst hafa reglu­lega í fjöl­miðlum heyra von­andi sög­unni til inn­an skamms.

Í vinn­unni við lög­in var sér­stak­lega reiknað út hvaða áhrif þess­ar breyt­ing­ar hefðu efna­hags­lega. Það kom í ljós, sem eru ef­laust lít­il tíðindi fyr­ir marga, að þessi áhersla á vel­sæld barna hef­ur ekki aðeins gríðarlega já­kvæð áhrif á ein­stak­ling­inn sjálf­an held­ur kem­ur hún til með að skila sam­fé­lag­inu öllu fjár­hags­leg­um ávinn­ingi. Sé stutt við þau börn sem á því þurfa að halda aukast lík­urn­ar á því að þau njóti auk­inna lífs­gæða á lífs­leiðinni.

Önnur stór breyt­ing sem varð á síðasta kjör­tíma­bili var nýr Mennta­sjóður náms­manna sem varð að veru­leika með vinnu Lilju Dagg­ar Al­freðsdótt­ur sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra. Í þeim breyt­ing­um eru aðstæður náms­manna orðnar mun betri, ekki síst barna­fólks þar sem nú er veitt­ur styrk­ur fyr­ir hvert barn en ekki viðbót­ar­lán eins og áður. Með þessu er stutt sér­stak­lega við ungt barna­fólk og tæki­færi þess til náms auk­in veru­lega.

Ég hef lagt á það áherslu í mín­um störf­um að fá sjón­ar­horn barna og ung­menna varðandi sam­göng­ur. Sér­stak­ur starfs­hóp­ur hef­ur komið með til­lög­ur í þeim efn­um sem snú­ast meðal ann­ars um betri vegi þar sem börn fara um til að sækja skóla, aukna áherslu á göngu- og hjóla­stíga og að sam­gönguþing ung­menna og barna verði hluti af ár­legu Sam­gönguþingi. Það er nefni­lega þannig að þegar stjórn­mál­in hugsa um hags­muni barna þá verður ákv­arðana­tak­an ábyrg­ari og horf­ir meira til framtíðar. Sú áhersla sem ég lagði á um­ferðarör­yggi í störf­um mín­um er ná­tengt þess­ari sýn á sam­fé­lagið.

Hús­næði er frumþörf

Ein af stóru breyt­ing­un­um sem birt­ast í nýrri rík­is­stjórn er að hús­næðismál, skipu­lags­mál, sam­göng­ur, sveit­ar­stjórn­ar- og byggðamál eru nú öll í einu innviðaráðuneyti. Það gef­ur okk­ur tæki­færi til að leggja meiri áherslu á hús­næðismál um allt land. Það verður að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Hús­næði er frumþörf mann­eskj­unn­ar og má ekki vera fjár­hags­legt happ­drætti. Með betri og breiðari yf­ir­sýn er hægt að ná þessu jafn­vægi og leiða sam­an ólíka aðila til að bæta lífs­gæði íbúa lands­ins og búa bet­ur að fjöl­skyld­um, hvar sem þær ákveða að stofna heim­ili.

Fjöl­breytt at­vinnu­tæki­færi um allt land

Vinna, vöxt­ur og vel­ferð hef­ur lengi verið leiðar­stef Fram­sókn­ar. Sam­fé­lagið hvíl­ir á því að fólki standi til boða fjöl­breytt at­vinna um allt land. Sú viðhorfs­breyt­ing varðandi störf rík­is­ins, sem kem­ur fram í stjórn­arsátt­mála nýrr­ar rík­is­stjórn­ar Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, er mik­il tíðindi. Störf á veg­um rík­is­ins eiga ekki að vera staðbund­in nema þau séu sér­stak­lega skil­greind þannig. Þetta þýðir að frelsi fólks til bú­setu er stór­aukið. Þessi breyt­ing kall­ar á viðhorfs­breyt­ingu meðal stjórn­enda hjá rík­inu og mun ég leggja mikla áherslu á að þessi grund­vall­ar­breyt­ing á hugs­un varðandi störf starfs­manna rík­is­ins verði al­menn og viðvar­andi.

Stjórn­mál snú­ast um þjón­ustu

Í störf­um mín­um síðustu fjög­ur árin lagði ég mikla áherslu á að efla sveit­ar­stjórn­arstigið. Það er að mati mínu og margra annarra og veik­b­urða og er það ekki síst vegna þeirra mörgu og smáu ein­inga sem sveit­ar­fé­lög­in eru. Með nýrri hugs­un í mál­efn­um barna verður það enn mik­il­væg­ara að sveit­ar­fé­lög­in standi sterk og það verður helst gert með því að þau stækki. Hlut­verk sveit­ar­stjórna er skýrt, al­veg eins og hlut­verk rík­is­stjórna: Þær eiga að tryggja lífs­gæði, þær eiga að tryggja jöfn tæki­færi íbú­anna til að blómstra og þar eru mál­efni barna mik­il­væg­asti þátt­ur­inn. Öflugt skóla­kerfi frá leik­skóla er nauðsyn­legt til þess að öll börn njóti sömu tæki­færa. Það hef­ur sýnt sig að fé­lags­leg­ur hreyf­an­leiki er mik­ill á Íslandi. Öflugt mennta­kerfi um allt land skap­ar al­menn og mik­il lífs­gæði fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Heils­an í fyrsta sæti

Síðustu tvö ár hafa öðru frem­ur snú­ist um bar­áttu við heims­far­ald­ur og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar hans. Það er óhætt að segja að ár­ang­ur okk­ar í bar­átt­unni, bæði hvað varðar heils­una og efna­hag­inn, hef­ur gengið von­um fram­ar. Við stönd­um nú á ákveðnum tíma­mót­um í bar­átt­unni við veiruna. Við sjá­um að nýtt af­brigði virðist hafa væg­ari veik­indi í för með sér en á móti kem­ur að það er meira smit­andi og fer um sam­fé­lagið eins og eld­ur í sinu. Það er eðli­legt og ábyrgt að fara var­lega í aflétt­ing­ar en enn frem­ur ljóst að þráin eft­ir venju­legu lífi er mik­il og eðli­leg. Bar­átt­an við veiruna er þó ekki eina verk­efni nýs heil­brigðisráðherra, Will­ums Þórs Þórs­son­ar, því fram und­an er styrk­ing heil­brigðis­kerf­is­ins og þjón­ustu við eldra fólk um allt land. Ég er mjög þakk­lát­ur fyr­ir hið mikla og óeig­ingjarna starf þeirra sem standa í eld­lín­unni í far­aldr­in­um, hvort sem þau starfa í heil­brigðis­kerf­inu, mennta­kerf­inu eða lög­gæslu.

Tæki­fær­in bíða okk­ar

Lofts­lags­mál­in eru stærsta úr­lausn­ar­efni sam­tím­ans. Yngstu kyn­slóðirn­ar hafa mikl­ar áhyggj­ur og er það skilj­an­legt miðað við þá há­væru umræðu sem verið hef­ur síðustu árin. Ný rík­is­stjórn er metnaðarfull í áform­um sín­um varðandi lofts­lags­mál og hún er raun­sæ. Við höf­um nú þegar náð mikl­um ár­angri með raf- og hita­veitu­væðingu lands­ins. Græn orka er ein eft­ir­sótt­asta vara í heimi og þá orku eig­um við og höf­um gríðarlega reynslu af því að fram­leiða. Það skap­ar tæki­færi fyr­ir okk­ur, bæði í græn­um iðnaði og garðyrkju, svo eitt­hvað sé nefnt, en það skap­ar líka tæki­færi fyr­ir frum­kvöðla og ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki til að sækja með þessa þekk­ingu til annarra landa. Hug­verkaiðnaður­inn snýst ekki aðeins um aðgang að grænni orku held­ur að skap­andi hugs­un og þekk­ingu. Hug­verkaiðnaður­inn, hvort sem hann felst í lyfjaiðnaði eða tölvu­leikja­gerð, hef­ur stækkað mikið á síðustu miss­er­um og mun ef rétt er haldið á spöðunum blómstra enn frek­ar á næstu árum og ára­tug­um.

List­in er upp­spretta nýrra tæki­færa

Sag­an af Emil í Katt­holti er ekki bara speg­ill á sam­fé­lag. Sag­an sýn­ir okk­ur líka mik­il­vægi menn­ing­ar og lista í því að skapa verðmæti, and­leg og ver­ald­leg. Auk­in áhersla á menn­ingu og skap­andi grein­ar skap­ar ekki aðeins auk­in tæki­færi til at­vinnu held­ur skap­ar hún vit­und um sam­fé­lag. All­ir okk­ar stór­kost­legu lista­menn sem auðga líf okk­ar hafa einnig lagt mikið af mörk­um til þess að skapa sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar; skapa ímynd Íslands. Kvik­mynda­gerðin, tón­list­in, bók­mennt­irn­ar, mynd­list­in, leik­list­in eru upp­spretta nýrra hug­mynda og nýrra tæki­færa.

Sam­fé­lagi sem legg­ur áherslu á vel­ferð barna og hlust­ar á radd­ir þeirra hlýt­ur að farn­ast vel. Þannig sam­fé­lag horf­ir til framtíðar með hags­muni kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi. Í þannig sam­fé­lagi vil ég búa og þannig sam­fé­lag mun ég og Fram­sókn leggja alla krafta okk­ar í að viðhalda og efla á næstu árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2021.

Categories
Greinar

Hugleiðingar í lok árs 2021

Deila grein

29/12/2021

Hugleiðingar í lok árs 2021

Kæri lesandi.

Þegar þetta er ritað er aðeins farið að rökkva á Þorláksmessu. Daginn er tekið að lengja og helgin að færast yfir samfélagið. Þetta er fallegur og göldróttur tími. Jólaljósin lýsa upp skammdegið. Og þegar veðrið er stillt og fallegt eins og núna fyrir utan gluggann hjá mér þá færist einhver einstök kyrrð yfir sveitina. Kyrrð þessa árstíma er frábrugðin kyrrð annarra tíma ársins því í þessari kyrrð lifna minningar um fyrri jól og ekki síst jól æskunnar.

Framundan eru áramótin með tilheyrandi uppgjöri við hið liðna og þönkum um það sem koma skal. Árið sem nú er að líða frá okkur hefur verið mörgum þungt. Það hefur einkennst af baráttu við heimsfaraldurinn en eins og önnur kosningaár þá hefur það einkennst af grundvallarumræðum um samfélagið og í hvaða átt við viljum að það stefni og hvaða leiðir skuli farnar. Ég get sem formaður Framsóknar, þessa 105 ára gamla flokks, litið sáttur til baka yfir árið. Við í Framsókn nutum í haust góðrar uppskeru eftir vinnu síðustu ára. Sá sigur sem við unnum í kosningunum var mikilvægur og merkilegur. Miðjan, samvinnan og hófsemin vann stórsigur. Og eins og ég hef oft sagt þá er það á miðjunni sem framtíðin ræðst, það er á miðjunni sem það jafnvægi verður til sem framfarir byggja á.

Kosningabarátta Framsóknar gekk út á það að fjárfesta í fólki og hún gekk út á það að við trúum á afl íslensks samfélags til að skapa verðmæti sem leiðir til aukinna lífsgæða allra Íslendinga. Við erum ekki flokkur sem sér djöfla í hverju horni, við erum flokkur sem sér tækifærin. Við sjáum ekki vandamál, heldur verkefni. Og verkefni okkar næstu árin eru mörg og þau eru brýn.

Tækifærin í grænum iðnaði eru mikil og mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem hægt er við uppbyggingu hringinn í kringum landið.

Í stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs má heyra hjartslátt samfélagsins. Í honum ríkir bjartsýni. Bjartsýni um að framtíðin færir okkur aukin lífsgæði ef rétt er á málum haldið og bjartsýni um að við getum lagað það sem þarf að laga. Í stjórnarsáttmálanum hljómar stefna og hugsjónir Framsóknar.

Framtíðin er spennandi og framtíðin er björt. Þau tækifæri sem blasa við okkur eru mörg og þau eru um allt land. Ferðaþjónustan tekur skjótt við sér þegar aðstæður í ferðamennsku heimsins batna með hækkandi sól. Tækifærin í sjávarútvegi og landbúnaði eru mikil og öflug nýsköpun byggir ofan á þá reynslu og þekkingu sem er til í þessum rótgrónu atvinnugreinum á Íslandi. Tækifærin í grænum iðnaði eru mikil og mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem hægt er við uppbyggingu hringinn í kringum landið. Þá er sú sókn sem hafin er í hugverkaiðnaði og skapandi greinum sérstaklega spennandi og mun ef rétt er haldið á spöðunum skapa fjölmörg eftirsóknarverð og verðmæt störf fyrir unga jafnt sem eldri. Sá kraftur og sú hugmyndaauðgi sem býr í listum, sögu og menningu þjóðarinnar okkar felur í sér einstök tækifæri til að skapa verðmæti – bæði fjárhagsleg og samfélagsleg.

Ég ætla að leyfa mér að með vorinu birti ekki aðeins til í bókstaflegum skilningi heldur munum við ná sífellt betri tökum á faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum.

Við erum okkar eigin gæfu smiðir. Það er mikilvægt að við tökum öll ábyrgð á eigin lífi og barna okkar. Það eru hins vegar hagsmunir alls samfélagsins að við búum börnum og ungmennum sterka umgjörð sem samfélag. Það er mikilvægt að stuðningskerfið snúist um hagsmuni og heilbrigði einstaklingsins en ekki kerfið sjálft. Við höfum stigið ákveðin og dýrmæt skref í þá átt á síðustu misserum og munum áfram vinna að því að skapa umgjörð þar sem allir fá tækifæri til að blómstra á sínum forsendum.

Við höfum sýnt það síðustu tvö árin að samstaða og samvinna er þjóðinni í blóð borin. Við höfum tekist á við erfiðar aðstæður og staðið okkur vel. Nú rís sólin fyrr á hverjum degi og færir okkur meira ljós. Ég ætla að leyfa mér að með vorinu birti ekki aðeins til í bókstaflegum skilningi heldur munum við ná sífellt betri tökum á faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum. Og ef við göngum til verka bjartsýn og æðrulaus verður sú framtíð sem býður okkar björt og rík af tækifærum.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegs árs og gæfuríks.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á 27. desember 2021.

Categories
Greinar

105 ár Fram­sóknar fyrir ís­lenskt sam­fé­lag

Deila grein

17/12/2021

105 ár Fram­sóknar fyrir ís­lenskt sam­fé­lag

Kæri lesandi.

Saga Framsóknar í 105 ár er samofin framfarasögu íslensku þjóðarinnar og hvernig íslenskt samfélag hefur komist í efstu sæti í flestu því sem þykir gott og mikilvægt í samfélögum heimsins. Stóran hluta þessara 105 ára hefur Framsókn setið við ríkisstjórnarborðið en þess á milli veitt ríkisstjórnum landsins mikilvægt aðhald í stjórnarandstöðu.

Framsókn er miðjuflokkur sem hefur samvinnu að leiðarljósi í störfum sínum. Hún hafnar öfgum, hvort sem þær eru kenndar við hægri eða vinstri eða aðra ása, og leitar eftir sátt og samvinnu um leiðir og niðurstöðu sem eru almenningi til heilla. Það er samvinnan sem hefur skilað okkur á Íslandi svo hratt áfram í þróun samfélagsins. Samtakamáttur og samvinnu eru lykillinn að framförum. Við í Framsókn horfum á þann góða grunn sem samfélagið byggir á og styðjum við breytingar á því sem þarf að laga. Framsókn er ekki flokkur byltinga, við erum flokkur framfara.

Það er ekki sjálfsagt að stjórnmálahreyfingar nái háum aldri. Til þess að svo megi verða þurfa þær að vera síkvikar og hrærast með samfélaginu sem þær eru hluti af, samfélaginu sem þær þjóna. Það erindi sem Framsókn hefur í stjórnmálum á Íslandi er mikið eins og sýndi sig í kosningasigri haustsins. Erindið er margþætt en byggir á því sem var meitlað orð fyrir löngu síðan: Vinna, vöxtur, velferð. Án öflugs atvinnulífs verður ekki hægt að halda úti öflugu velferðarkerfi. Undirstaða framfaranna er einnig áhersla á að hver og einn fái tækifæri til að blómstra í sínu lífi með góðri menntun og fjölbreyttum atvinnutækifærum.

Frá því Framsókn varð til í desember 1916 hefur hún alltaf lagt áherslu á öflugt atvinnulíf um allt land. Smátt og smátt hefur stoðum efnahagslífsins fjölgað og þær gildnað: Landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður, ferðaþjónusta og nú síðast skapandi greinar og hugverkaiðnaður. Við okkur blasa miklar áskoranir vegna loftslagsbreytinga en í þeim áskorunum felast líka tækifæri fyrir land sem byggir á grænni orku.

Kæri lesandi. Framsókn mun hér eftir sem hingað til beita sér fyrir umbótum í íslensku samfélagi, landsmönnum til heilla. Ég þakka þann mikla stuðning sem Framsókn hefur hlotið í gegnum tíðina og þá ekki síst í kosningasigri ársins 2021. Framtíðin er græn, hún er björt, og hún ræðst á miðjunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2021.

Categories
Greinar

Árangur næst með samvinnu

Deila grein

23/09/2021

Árangur næst með samvinnu

Það er nán­ast sama hvaða alþjóðlegu mæli­kv­arðar eru nefnd­ir, alls staðar er Ísland of­ar­lega á lista yfir góð sam­fé­lög. Við sem byggj­um þetta land nú þegar liðið er 21 ár af þess­ari öld get­um verið afar þakk­lát fyr­ir þann arf sem gengn­ar kyn­slóðir hafa ánafnað okk­ur. Það þýðir þó ekki að allt sé í lagi og engu þurfi að breyta. Grund­vall­ar­atriðið er að vinna að um­bót­um með sam­vinnu og sam­stöðu en ekki bylt­ing­um og til­heyr­andi kollsteyp­um.

Nú snýst kerfið um barnið

Í tíð sitj­andi rík­is­stjórn­ar höf­um við í Fram­sókn leitt mörg stór um­bóta­mál. Vil ég nefna þrjú þeirra. Fyrst skal nefna barna­mál­in sem Ásmund­ur Ein­ar hef­ur leitt. Með miklu sam­ráði við fag­fólk, not­end­ur þjón­ustu og aðstand­end­ur þeirra og lyk­ilfólk úr öðrum stjórn­mála­flokk­um tókst Ásmundi Ein­ari að breyta kerf­inu þannig að það snýst ekki leng­ur um sjálft sig held­ur um barnið sjálft.

Betra náms­lána­kerfi fyr­ir framtíðina

Næst vil ég nefna nýj­an Mennta­sjóð sem Lilja Dögg, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, kom á lagg­irn­ar en helstu breyt­ing­arn­ar í nýju náms­lána­kerfi fel­ast í því að höfuðstóll er lækkaður um 30% ef náms­fram­vinda er eðli­leg, náms­menn fá styrk vegna barna en ekki aukið lán og að hægt verður að nota náms­lána­kerfið til að hvetja með íviln­un­um til náms í ákveðnum grein­um eða hvetja sér­fræðinga til bú­setu í hinum dreifðari byggðum.

Fjöl­breytt­ar sam­göng­ur fyr­ir auk­in lífs­gæði

Að lok­um vil ég sér­stak­lega nefna sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þeir sem aka um göt­ur höfuðborg­ar­svæðis­ins taka eft­ir þeim miklu töf­um sem eru víða. Þær taf­ir eru að miklu leyti komn­ar til vegna þess mikla frosts sem ríkti í sam­skipt­um borg­ar­inn­ar og rík­is­ins þegar kom að sam­göng­um. Áhersl­ur þess­ara aðila voru gjör­ólík­ar. Eitt af fyrstu verk­um mín­um í sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­inu var að kalla aðila sam­an að borðinu og vinna að sam­eig­in­legri sýn um fjöl­breytta upp­bygg­ingu sam­gangna á höfuðborg­ar­svæðinu: öfl­ugri stofn­leiðum, bætt­um al­menn­ings­sam­göng­um, göngu- og hjóla­stíg­um og bættri um­ferðar­stýr­ingu. Niðurstaðan er að á næstu fimmtán árum verður 120 millj­örðum króna varið til þess að greiða leið um höfuðborg­ar­svæðið.

Þau mál sem ég hef tæpt á hér sýna í hnot­skurn hverju er hægt að áorka ef leið sam­vinnu og sátta er val­in. Eng­ar bylt­ing­ar, held­ur mik­il­væg­ar um­bæt­ur til að auka lífs­gæði á land­inu okk­ar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021.

Categories
Greinar

Vörslumenn landsins: Bændur

Deila grein

20/09/2021

Vörslumenn landsins: Bændur

Það sárnaði mörgum ummæli um að sauðfjárbúskapur væri hobbý en kannski eðlilegt að það virðist svo því starfið umlykur alla hans tilveru: Starfið er lífið sjálft. Það er enginn bóndi til án ástríðu. Þessi mikli áhugi og ástríða má þó ekki vera afsökun fyrir því að bæta ekki kjör bænda. Okkur stjórnmálamönnum ber skylda til þess að búa bændum betri skilyrði til að þróa búskap sinn og skapa aukin verðmæti.

Framsókn á uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað. Við í Framsókn skiljum að búskapur er ekki eins og hver önnur atvinnugrein. Búskapur er það sem hefur viðhaldið byggðum hringinn í kringum okkar fallega land. Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á okkur öll en eitt af því jákvæða sem ég sé við hann er að aldrei fyrr hefur sókn Íslendinga í að ferðast um eigið land verið meiri. Því fylgir aukinn skilningur á því að við erum ein þjóð og Reykjanesbrautin suður á flugvöll ekki eina þjóðbrautin. Nú trúi ég því að tilfinningin um að við höfum öll svipaða hagsmuni, hvar sem við búum á landinu. Við þurfum öll á hvert öðru að halda.

Það sem hefur líka gerst með yngri kynslóðum og þeirri miklu umræðu sem hefur verið um loftslagsmál og heilbrigði almennt er að fleiri bera meiri virðingu fyrir þeirri mikilvægu atvinnugrein sem er fóstruð í sveitum landsins. Bændur hafa frá landnámi verið vörslumenn landsins og náttúrunnar og hafa á síðustu árum sýnt stöðugt meiri ábyrgð í því hlutverki. Íslenskir neytendur, við öll, getum líka verið ákaflega þakklát að íslenskur landbúnaður er með sérstöðu í heiminum hvað varðar notkun sýklalyfja. Þá sérstöðu verðum við að vernda.

Verkefnin sem snúa að landbúnaðinum eru mörg brýn. Við í Framsókn viljum að frumframleiðendum verði heimilað samstarf eins og víðast hvar í Evrópu og að afurðastöðvum í kjöti verði heimilað samstarf líkt og í mjólkurframleiðslu. Við teljum mikilvægt að tollasamningi við ESB verði sagt upp og hann endurnýjaður vegna forsendubrests, ekki síst vegna útgöngu Breta úr sambandinu. Það er einnig brýnt að tollaeftirlit verði hert svo innlendir framleiðendur búi við eðlileg samkeppnisskilyrði.

Á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið hefur mikið verið rætt um miðhálendisþjóðgarð. Framsókn setti strax í upphafi fyrirvara í þeirri vinnu því að í málum sem snerta svo stóran hluta landsins verður að stíga varlega til jarðar. Í byrjun árs þegar frumvarpið leit dagsins ljós setti þingflokkur Framsóknar fyrirvarana aftur fram. Það hafa fáir bændur gleymt því mikla stríði sem var háð í hinum svokölluðu þjóðlendumálum.

Framsókn stendur við fyrirvarana sem settir voru fram við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð.

Nú er göngum og réttum að ljúka víða um landið. Framundan eru kosningar – og sláturtíð. Ég óska eftir stuðningi þínum stuðningi þínum, lesandi góður, í kosningunum þ.e.a.s. og hlakka til að taka slátur með stórfjölskyldunni þegar ryk stjórnmálanna verður sest.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist í Bændablaðinu 13. september 2021.

Categories
Greinar

Fjárfestum í heilbrigði þjóðarinnar

Deila grein

19/09/2021

Fjárfestum í heilbrigði þjóðarinnar

Ég hef alltaf dáðst að því fólki sem helg­ar ævi sína því að lækna fólk og hjúkra. Við meg­um sem þjóð vera af­skap­lega þakk­lát fyr­ir allt það fólk sem fet­ar þessa braut. Við höf­um lík­lega aldrei fundið jafn sterkt fyr­ir því hvað við eig­um gott heil­brigðis­kerfi og á þess­um þungu mánuðum sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur ásótt okk­ur. Heil­brigðis­starfs­fólk hef­ur staðið sig með ein­dæm­um vel þrátt fyr­ir mikið álag.

Við vilj­um blandað kerfi op­in­bers rekstr­ar og einka­rekstr­ar

Við í Fram­sókn erum fylgj­andi því að heil­brigðis­kerfið sé heil­brigð blanda af op­in­ber­um rekstri og einka­rekstri. Ég heyri radd­ir um mik­il­vægi blandaðs kerf­is, ekki síst inn­an úr heil­brigðis­kerf­inu sjálfu. Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem alla daga vinna með líf fólks í hönd­um sín­um. Það hlýt­ur að vera mikið álag á lík­ama og sál að vinna í svo miklu ná­vígi við erfiða sjúk­dóma og af­leiðing­ar slysa. Þess vegna er mik­il­vægt að kjör heil­brigðis­starfs­fólks séu góð og stytt­ing vinnu­vik­unn­ar sé raun­veru­leg. Hluti af því að bæta aðstæður er að kerfið sé blandað.

Heild­stæð og fram­sýn stefna

Ég heyri and­stæðinga þess að við byggj­um upp sterkt blandað kerfi op­in­bers rekst­ar og einka­rekstr­ar oft segja að það sé ekki eðli­legt að stóra sjúkra­húsið okk­ar sé með erfiðu aðgerðirn­ar en á einka­reknu stof­un­um séu ein­fald­ari og „létt­ari“ aðgerðir. Fram­leiðnin (þótt mér þyki alltaf erfitt að tala um fram­leiðni þegar rætt er um líf fólks og heilsu) verði meiri og því mögu­lega meiri velta. Eitt af verk­efn­um næstu rík­is­stjórn­ar er að leiða sam­an full­trúa heil­brigðis­stétta, sér­fræðinga, frjálsra fé­laga­sam­taka og þeirra sem nota þjón­ustu spít­al­anna til að móta heild­stæða og fram­sýna stefnu þegar kem­ur að heil­brigði þjóðar­inn­ar.

Hugs­um um heilsu þjóðar­inn­ar

Við í Fram­sókn vilj­um fjár­festa í heil­brigði. Í því felst að auka verður áherslu á for­varn­ir, geðheil­brigði og hreyf­ingu. Við þurf­um að búa til þær aðstæður og hvatn­ingu að fólk hugsi um heilsu sína og þannig minnka álagið á sjúkra­hús­in þegar líður á æv­ina.

Heils­an er það dýr­mæt­asta sem við eig­um. Því er mik­il­vægt að hver og einn sé meðvitaður um heilsu sína. Meiri áhersla á for­varn­ir og fræðslu er fjár­fest­ing sem skil­ar sér í aukn­um lífs­gæðum ein­stak­lings­ins og minna álagi á sjúkra­stofn­an­ir.

Með þessi áherslu­mál ósk­um við í Fram­sókn eft­ir stuðningi í kosn­ing­un­um 25. sept­em­ber næst­kom­andi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. september 2021.

Categories
Greinar

Fjárfestum í fólki

Deila grein

16/09/2021

Fjárfestum í fólki

Meginstefið í öllum baráttumálum Framsóknar fyrir kosningarnar 25. september er fjárfesting í fólki. Það er í samræmi við þau megingildi Framsóknar sem einhvern tímann fyrir löngu voru meitluð í orðunum vinna, vöxtur, velferð. Öflugt velferðarkerfi, öflugt heilbrigðiskerfi grundvallast á öflugu atvinnulífi.

Við höfum á því kjörtímabili sem er að ljúka unnið hörðum höndum í breiðri stjórn að mikilvægum framfaramálum og vil ég sérstaklega nefna byltingu kerfisins í þágu barna, nýjan Menntasjóð námsmanna, 12 mánaða fæðingarorlof, hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og tekjulægri, Loftbrú og þær umfangsmiklu framkvæmdir í samgöngum sem landsmenn hafa orðið varir við á ferðum sínum um landið okkar í sumar.

Hagur einstaklingsins er hagur alls samfélagsins

Í umfangsmikilli vinnu Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, við róttæka endurskoðun á kerfinu sem varðar málefni barna var það reiknað út að það að kerfin tali saman og grípi snemma inn í hefur ekki aðeins í för með sér aukna lífshamingju einstaklingsins heldur er það stórkostlegur þjóðhagslegur ávinningur. Þessi vinna sýndi svo ekki verður um villst að áhersla Framsóknar í gegnum tíðina á velferð er hagur samfélagsins alls.

Okkur líður flestum best heima hjá okkur

Með þessa vinnu sem fyrirmynd viljum við bæta aðstæður eldra fólks. Reynsla margra er að kerfin tali ekki nægilega vel saman. Því verður að breyta og hugmyndafræði Framsóknar um samvinnu ólíkra aðila í barnamálum sýnir svo ekki verður um villst að það er hægt. Við viljum leggja áherslu á þjónustu við eldra fólk utan stofnana. Aukin og samhæfð heimaþjónusta, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukin tæknivæðing og markviss stuðningur miða öll að því að fólk geti svo lengi sem það vill og hefur burði til búið þar sem því líður best: heima hjá sér.

Aldur skiptir ekki máli

Við viljum afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun og hætti störfum við ákveðinn aldur: Þeir sem vilja vinna, mega vinna. Starfskraftar og reynsla þeirra sem safnað hafa árum er samfélaginu mikilvæg og það er gott fyrir þá sem vilja vinna að finna áfram fyrir mikilvægi sínu og fái gleði úr störfum sínum.

Hlutdeildarlán fyrir eldra fólk

Það eldra fólk sem býr við bágust kjör á yfirleitt er oft þjakað af háum húsnæðiskostnaði, hvort sem það er leiga eða háar afborganir af húsnæðislánum. Við viljum að eldra fólki standi til boða sú leið sem farin er í hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága þar sem ríkið veitir lán fyrir allt að 20% kaupverðs. Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni og er lánið endurgreitt þegar eignin er seld eða við lok lánstíma.

Með þessi áherslumál óskum við í Framsókn eftir stuðningi í kosningunum 25. september næstkomandi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2021.

Categories
Greinar

Öflugur landbúnaður er hagur okkar allra

Deila grein

15/09/2021

Öflugur landbúnaður er hagur okkar allra

Þegar líður á sumar verður maður alltaf þakklátari og þakklátari fyrir hvern bjartan sumardag sem okkur er gefinn. Þeir hafa verið margir góðir í sumar, líklega þó helst fyrir austan og norðan þaðan sem sólbrúnar og sælar myndir hafa flætt um samfélagsmiðla. Eftir heyskap breytist takturinn og eftirvæntingin eftir göngum og réttum tekur völdin. Síðasta haust var réttarstemningin önnur, enda hefur veiran lagst illa á hefðbundna viðburði og samkomur frá því hún heimsótti okkur fyrir einu og hálfu ári síðan.

Við verðum að líta til framtíðar, enda uppskeruhátíð lýðræðisins í vændum þar sem kosið verður um verk okkar sem störfum í stjórnmálum og þá ekki síður þá framtíðarsýn sem við höfum upp á að bjóða. Ég lít stoltur yfir síðustu ár á þau mál sem við í Framsókn höfum látið verða að veruleika. Eins og margir hafa orðið varir við þá hefur aldrei verið jafnmikill kraftur í uppbyggingu í samgöngum eins og nú. Mikilvægt er að sá kraftur haldi áfram á næstu árum því af nógu er að taka, bæði í nýjum vegum, höfnum og í viðhaldi á öllum sviðum. Ísland ljóstengt, ljós í fjós, er verkefni sem klárast á þessu ári og við tekur nýtt metnaðarfullt verkefni: Ísland fulltengt, átak í því að ljúka við ljósleiðaravæðingu þéttbýliskjarnanna út um landið. Samgöngur og fjarskipti eru stór byggðamál eins og við þekkjum öll sem búum utan höfuðborgarsvæðisins.

Þau eru mörg og brýn verkefnin sem þarf að vinna að í landbúnaði á næstu árum. Við í Framsókn höfum lagt áherslu á að nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu verði stórefld. Það er mikill kraftur í greininni þrátt fyrir að umræður lendi alltof oft í skotgröfunum. Þær skotgrafir þarf að moka ofan í því þær eru beinlínis skaðlegar greininni.

Bændur hafa um aldir verið vörslumenn landsins. Þeir taka ástand landsins og heimsins alvarlega enda eru uppsprettur lífsins að mörgu leyti í þeirra höndum því ekki vaxa lærissneiðarnar í kjötborðum stórmarkaðanna. Íslenskur landbúnaður hefur algjöra sérstöðu þegar kemur að heilnæmi og sýklalyfjagjöf. Þá sérstöðu verður að vernda og einnig nýta við markaðssókn erlendis.

Þau málefni landbúnaðar sem við í Framsókn setjum á oddinn í kosningabaráttunni eru einkum:

  • Að landnýting og ræktun sjá sjálfbær.
  • Að nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu verði stórefld.
  • Að stuðningur verði aukinn til að stuðla að fjölbreyttri ræktun og landnýtingu og kolefnisbindingu.
  • Að frumframleiðendum verði heimilað samstarf eins og þekkist í öllum löndum Evrópu.
  • Að afurðastöðvum í kjöti verði heimilað samstarf  með sambærilegum hætti og í mjólkurframleiðslu.
  • Að Bændum verði heimiluð slátrun og vinnsla að undangengnu áhættumati og kennslu.
  • Að tollasamningi við ESB verði sagt upp og hann endurnýjaður vegna forsendubrests, til dæmis vegna útgöngu Breta úr sambandinu.
  • Að tollaeftirlit verði hert til muna og gert sambærilegt því sem þekkist í samanburðarlöndum okkar.
  • Að stofnað verði nýtt ráðuneyti landbúnaðar og matvæla þar sem málefni skógræktar, landgræðslu og eftirlitsstofnana matvæla og landbúnaðar verða undir.

Ég vona að þú lesandi góður njótir þess sem lifir af sumri og haustsins með öllum sínum fallegu litum og ferskleika í lofti. Og minni um leið á það að framtíðin ræðst á miðjunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Eyjan græna

Deila grein

15/09/2021

Eyjan græna

Samgöngur til og frá Vestmannaeyjum eru og hafa verið mitt hjartans mál. Ég hef sem þingmaður þessa kjördæmis talað lengi fyrir því í ræðu og riti að samgöngur til og frá Vestmannaeyjum verði að vera skilvirkar. Sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fékk ég tækifæri til að efna þau loforð sem ég gaf og hef unnið sleitulaust að því að bæta samgöngur til Vestmannaeyjar, gera þær skilvirkari í þágu íbúana. Það er ekkert launungarmál að samgöngur hafa gríðarlega mikil áhrif á íbúaþróun, hvort að unga fólkið vilji koma til baka og setjast að og þær spila stórt hlutverk í komu ferðamanna til Vestmannaeyja. Það er ánægjulegt að heyra að fjöldi farþegar sem hefur farið með Herjólfi er á pari við venjulegt árferði, með Þjóðhátíð. Í lok kjörtímabils er rétt að rifja upp það sem gert hefur verið undir minni stjórn.

Herjólfur

Eitt af mínum fyrstu verkum í samgönguráðuneytinu var að breyta fyrri ákvörðun um Vestmannaeyjaferju í samræmi við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar þannig að ferjan gangi fyrir rafmagni.

Í framhaldi fól samgönguráðuneytið Vegagerðinni að semja um breytingar á hönnun nýju Vestmannaeyjaferjunnar í því skyni að hún muni ganga því sem næst eingöngu fyrir rafmagni.

Nýjan ferjan kom, íbúar kusu um að nota áfram Herjólfsnafnið og gamli Herjólfur er til taks. Ég hef talað um fyrir þessu og í mínum huga er þetta skýrt. Nýr rafvæddur Herjólfur hefur sannað sig.

Nokkrar útfærslur á rekstrarmódeli Herjólfs komu til greina. Í mínum huga er skýrt að endurbættur rekstrarsamningur sem Samgönguráðuneytið gerði við bæjarfélagið undir lok síðasta árs hefur reynst vel. Ávinningur hins nýja samnings er slíkur að félagið getur unnið upp það tap sem orðið hafði á rekstri þess. Þessu til viðbótar þá var á kjörtímabilinu veittur veglegur stuðningur vegna Covid, viðbótarkostnaður bættur vegna tafa á afhendingu á nýjum Herjólfi, , ferðum fjölgað og þjónustan bætt.

Á kjörtímabilinu voru fargjöldin jöfnuð og er því sama gjald hvort sem Herjólfur siglir frá Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Kostnaður gat áður verið hár ef það þarf að sigla til og frá Þorlákshöfn, sérstaklega fyrir fjölskyldur.

Landeyjahöfn

Vel hefur gengið að hreinsa frá sand og halda Landeyjahöfn opinni fyrir Herjólf. Mikilvæg breyting var gerð að dýpkun Landeyjahafnar er ekki lengur bundin við ákveðinn tíma á ári, nú er hægt að dýpka eftir þörfum.

Endanlegri þróun Landeyjahafnar er ekki lokið og hef ég hug á því að þeirri vinnu ljúki sem fyrst og var það í samræmi við ályktun Alþingis. Óháðir aðilar voru fengnir til að rýna gögn Vegagerðarinnar. Vinna stendur nú yfir að safna betri gögnum með nýju skipi sem munu leiða til niðurstöðu um hverskonar aðgerðir eru nauðsynlegar til úrbóta á Landeyjahöfn. Þá var rafhleðslubúnaður settur upp.

Flug

Þess má geta að í vikunni átti ég fund með bæjarstjórn um reglulegt flug til Vestmannaeyja. Slíkt þarf að skoða með opnum hug og hef ég beðið Vegagerðina að greina þörfina og hvaða möguleika ríkið hefur til að grípa inn í ef um markaðsbrest er að ræða. Þá er ótalið yfirborðsviðhald á flugvelli Vestmannaeyjaflugvallar og Loftbrúin þegar flugsins nýtur við.

Lokaorð

Samgöngur eru lífæð íbúa Vestmannaeyja og hefur bærinn tekið miklum breytingum frá því að Landeyjahöfn var opnuð árið 2010. Fjöldi ferðamanna hefur stóraukist, Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn. Eins og í öðrum almenningssamgöngum þá byggist þjónustan og traustið til hennar á tíðni ferða, fyrir íbúa og fyrirtæki. Halda þarf áfram að bæta þjónustuna sem þarf að skoða með opnum hug. Áframhaldandi rannsóknir á Landeyjahöfn standa nú yfir með það að markmiði að auka nýtingu hafnarinnar. Ég hef einnig sagt að spennandi er og sjálfsagt að kanna og fá óháðan aðila til að meta til hlítar hvort göng á milli lands og Eyja sé raunhæfur kostur þegar til lengri tíma er litið. Slík úttekt þarf að fara fram á næsta kjörtímabili.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu -og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Eyjafréttum september 2021.

Categories
Greinar

Sósíal­istar vilja byltingu, Fram­sókn vill fram­farir

Deila grein

05/09/2021

Sósíal­istar vilja byltingu, Fram­sókn vill fram­farir

Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalistaflokksins, svarar grein minni Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna í ítarlegu og löngu máli eins og hans er von og vísa. Gunnar Smári er góður penni og beittur og endurskrifar sögu Framsóknar eins og hún sé á tiltölulega beinni leið til helvítis. Eins og áður er Sósíalistaflokkurinn fastur í fortíðinni enda er tal flokksmanna um arðrán, auðvald og kúgun, ómur frá upphafi síðustu aldar. Samvinnan sem Gunnari Smára er svo ofarlega í huga er samvinna sósíalista, sósíalista einna, ekki samvinna ólíkra afla um hvernig best sé að bæta samfélagið.

Stjórnmál eru ekki trúarbrögð

Í huga sósíalista virðist vera eitt einfalt svar við öllu og það er svar þeirra sjálfra. Að þessu leyti er hugarheimur þessa ysta vinstris ekki ólíkt hugarheimi þeirra sem liggja lengst til hægri með sína óheftu markaðshyggju. Um þá óheftu markaðshyggju má segja að hún hefur beðið skipbrot tvisvar sinnum á síðustu þrettán árum. Óheftur markaður skóp hrunið og óheftur markaður réði ekki við heimsfaraldurinn. Í bæði skipti hefur almenningur þurft að hlaupa undir bagga. Um sósíalismann þarf ekki að hafa mörg orð því saga síðustu aldar er öðrum þræði hörmungarsaga þeirrar öfgastefnu. Yst til hægri og yst til vinstri eru stjórnmál trúarbrögð þeirra sem telja sig hafa fundið hinn eina stóra sannleik. Í mínum huga eru stjórnmál ekki trúarbrögð heldur mikilvægt tæki til að bæta samfélagið.

Framsókn: Framsækinn miðjuflokkur

Framsókn er framsækinn miðjuflokkur. Í því felst að Framsókn vinnur með það besta úr báðum heimum, heimum vinstrisins og hægrisins. Við erum frjálslynt umbótaafl eins og Hermann Jónasson talaði um á sinni tíð og útskýrði frjálslyndi með þessum orðum: „Þetta felur í sér að flokkurinn er fordómalaus um úrlausnir aðsteðjandi vandamála á hverjum tíma. Hann vill beita aðferðum þekkingar og vísinda til að ryðja framþróuninni braut á grundvelli þeirra þjóðfélagslegu gilda sem stefna hans byggist á.“

Fortíðarþrá sósíalista

Ég heyri engan samvinnutón í trúarjátningu sósíalista. Ég heyri bara tón sundrungar. Sama hver spurningin er þá er svarið alltaf öfgakennd krafa um að brjóta niður og byggja svo upp á forsendum sósíalista. Alltumlykjandi er síðan fortíðarþráin, hvað allt var gott í gamla daga en ömurlegt í dag. Hvert sem litið er í stefnumálum sósíalista er afturhvarf til fortíðar, krafan um að gera Ísland gott aftur.

Hið jákvæða afl hvers og eins

Við búum í góðu samfélagi en alltaf má gera betur. Það gerum við með því að byggja á hinu jákvæða afli sem býr í hverjum og einum. Það gerum við með því að skapa umhverfi þar sem allir geta blómstrað – á eigin forsendum en ekki annarra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. september 2021.